154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

tímabil strandveiða.

[15:36]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg undir það með hv. þingmanni að þetta eru afskaplega vistvænar og góðar veiðar. Það er líka hárrétt hjá hv. þingmanni að ég er á þessu þingmannafrumvarpi. En staðan er svona núna. Vertíðin er að hefjast eftir afskaplega stuttan tíma. Það sem ég vil hins vegar vekja athygli á í þeirri reglugerð sem núna er undir er nýtt ákvæði sem fjallar um eignarhald þannig að einn og sami aðilinn geti ekki verið að reka marga báta. Ég held að það sé líka afskaplega mikilvægt að auka gagnsæi þar eins og annars staðar því að við þekkjum að þar hefur verið brotalöm. Við erum því að reyna að fikra okkur áfram með það sem hægt er að gera í reglugerð. En eins og ég segi þá er þetta mjög niðurnjörvað kerfi sem þarfnast lagabreytinga og umfjöllunar á Alþingi (Forseti hringir.) ef við ætlum okkur að gera einhverjar stórkostlegar breytingar og jafna kerfið aftur eins og það var að mínu mati hér áður fyrr, alla vega skárra heldur en það er í dag.