154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:03]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um vantraust á ríkisstjórnina þar sem Alþingi ályktar að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og lýsir þeim vilja sínum að þing verði rofið fyrir 26. júní og að efnt verði til almennra alþingiskosninga þann 7. september.

Við ræðum sem sagt ekki einungis um vantraust hér í dag heldur um kröfu um þingrof og kosningar. Tillagan er lögð fram fyrir hönd allra þeirra sem gefist hafa upp á ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Við erum að færa ríkisstjórninni skýr skilaboð þjóðarinnar um að henni sé ekki lengur treystandi. Skoðanakannanir undanfarinna missera taka af allan vafa um það og sýna svo að ekki verður á móti mælt að ríkisstjórnin nýtur einungis stuðnings um þriðjungs þjóðarinnar. Þrátt fyrir það höfum við í stjórnarandstöðu í hvívetna virt lýðræðið og stuðning kjósenda við stjórnarflokkana frá því í kosningunum 2021. En nú hafa orðið þær vendingar á stjórnarheimilinu að það er með öllu óafsakanlegt ef við sem kjörnir fulltrúar snúum blinda auganu að þeirri yfirgengilegu vanvirðingu ráðherra þessarar ríkisstjórnar gagnvart starfi sínu, sem þeim hefur verið falið að sinna af alúð og virðingu, sem þeir hafa verið að sýna gagnvart samfélaginu. Völdum ber og skal fylgja ábyrgð. Það er ábyrgðarlaust með öllu ef kjörnir fulltrúar ætla að láta það átölulaust þegar æðstu handhafar framkvæmdarvalds eru að skapa þá hefð að þegar ráðherra gengur í berhögg við þau valdmörk sem honum eru sett þá geti hann gert nákvæmlega það sem honum sýnist án þess að þurfa að axla ábyrgð, án þess að nokkur viðurlög liggi við afglöpum hans. Hann færir sig einungis á milli ráðuneyta. Með öðrum orðum, hann skiptir um stól.

Þessi vantrauststillaga er m.a. lögð fram þar sem hæstv. ráðherra, Bjarni Benediktsson, hefur nú gert sjálfan sig að forsætisráðherra eftir að hafa hrökklast úr fjármálaráðherrastólnum í kjölfarið á áliti umboðsmanns Alþingis þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það er niðurstaða mín að við ákvörðun sína 22. mars 2022, um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf., hafi fjármála- og efnahagsráðherra brostið hæfi samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 3. mgr. 1. gr. sömu laga, og þá í ljósi þess að meðal kaupenda var einkahlutafélag undir fyrirsvari og í eigu föður hans.“

Hann lét sér ekki einungis nægja að færa sig yfir í utanríkisráðuneytið í kjölfarið. Hann vildi meira. Nú hafa 41.538 einstaklingar skrifað undir mótmælaskjal þess efnis að Bjarni Benediktsson hafi ekki þeirra stuðning sem forsætisráðherra. Er það furða þó að manni misbjóði sú valdníðsla valdhafanna sem við höfum orðið vitni að í kjölfar þess að Katrín Jakobsdóttir ákvað að hella sér í baráttuna um Bessastaði? Virðingarleysið gagnvart ábyrgðinni sem felst í því að tróna á toppi valdapíramídans sem ráðherra er algjört og gengur gjörsamlega fram af landsmönnum flestum.

Umboðsmaður Alþingis birti og álit sitt á embættisfærslum Svandísar Svavarsdóttur, fráfarandi hæstv. matvælaráðherra, þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði bæði brotið gegn meðalhófs- og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar sem leiðir af sér brot á 75. gr. stjórnarskrár, um atvinnufrelsi. Leiða má að því líkur að með reglugerð sinni hafi hún gert ríkissjóð bótaskyldan um milljarða króna. Hún axlar ábyrgð með því að færa sig í enn yfirgripsmeira ráðuneyti og er nú orðin innviðaráðherra. Í áliti umboðsmanns Alþingis um reglugerð Svandísar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það er álit mitt að útgáfa reglugerðar nr. 642/2023 […] hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í 4. gr. laga nr. 26/1949, um hvalveiðar, eins og sú grein verður skýrð með hliðsjón af markmiðum sínum, lagasamræmi og grunnreglum stjórnskipunarréttar um vernd atvinnuréttinda og atvinnufrelsis. Án tillits til þessarar niðurstöðu tel ég einnig með hliðsjón af aðdraganda og undirbúningi reglugerðarinnar, svo og réttmætum væntingum Hvals hf., að útgáfa hennar hafi ekki, við þær aðstæður sem uppi voru, samrýmst kröfum um meðalhóf eins og þær leiða af almennum reglum stjórnsýsluréttar.“

Það er löngu tímabært að æðstu valdhafar þjóðarinnar átti sig á því að völdum þeirra eru takmörk sett og að lögbrot í starfi séu tekin föstum tökum.

Þessi vantrauststillaga snýst ekki einungis um óhæfa ríkisstjórn heldur einnig kröfu um kosningar. Við erum í þessari tillögu að bjóða nýtt upphaf og við erum að gefa fólkinu í landinu kost á því að velja á milli ólíkra leiða út úr því ófremdarástandi sem skapast hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við sem flytjum þessa vantrauststillögu tökum undir með kjósendum um að sitjandi ríkisstjórn þurfi að víkja. Leyfum fólkinu að velja nýja ríkisstjórn. Alþingi þarf að endurheimta trúnað og traust þjóðarinnar. Þjóðin biður ekki um meira en svo að þingmenn sinni samfélaginu sínu af alúð og virðingu og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja afkomu og velferð allra en ekki einungis sumra eins og þessi auðvaldsríkisstjórn hefur haft að megni til í meginstefnu sinni þann tíma sem hún hefur verið við völd.

Sitjandi hæstv. forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, sagði á sínum tíma um ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms að hún væri eins og grindahlaupari sem misstígur sig í upphafi en heldur hlaupinu áfram, hefur aldrei náð taktinum, fellir hverja einustu hindrun á leið sinni. Þessi orð hæstv. forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, sem hann flutti við vantrauststillögu sína á árinu 2011 gagnvart þáverandi ríkisstjórn Steingríms J. Sigfússonar og Jóhönnu Sigurðardóttur eru sannarlega lýsandi fyrir ríkisstjórn hans í dag. Grindurnar eru margar sem hún hefur fallið um. Salan á Íslandsbanka fékk falleinkunn frá ríkisendurskoðanda, samráðshópur um endurskoðun fiskveiðikerfisins, sem gekk undir heitinu Auðlindin okkar, afrekaði það helst að vera vettvangur stórútgerðarinnar, síendurtekin loforð um úrbætur í baráttunni gegn fíknisjúkdómum hafa reynst orðin tóm, hundruð hafa dáið ótímabærum dauða vegna fíknisjúkdóms í valdatíð þessarar ríkisstjórnar, vegna innri ágreinings í málefnum hælisleitenda varð veldisvöxtur í umsóknum um alþjóðlega vernd. Enn og aftur: Lýsandi fyrir sundurlyndi ríkisstjórnar sem hefur ítrekað dregið lappirnar í mikilvægum málum þar til skapast hefur vandi sem erfitt er að leysa.

Heilbrigðiskerfinu hefur hnignað ár frá ári og má segja að það sé orðið lífshættulegt sjúklingum í sumum tilvikum. Um helmingur barna útskrifast nú eftir tíu ára grunnskólanám ólæs eða með lélegan lesskilning. Það er með öllu ólíðandi hvernig ráðherrar ganga af léttúð um þau lög og þær reglur sem þeim ber að fylgja í störfum sínum. Þeir gerast brotlegir í starfi en firra sig allri ábyrgð með því að skipta um stól. Þegar ég ýja að því hvernig við erum að horfa á stöðuna í grunnskólanum okkar, ólæsi, vanlíðan barnanna okkar þar, þá get ég haldið áfram að telja til þau afglöp sem ég tel mig hafa orðið vitni að þau tæp sjö ár sem ég hef verið hér kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga.

Bersýnilega mun þessi vantrauststillaga ekki ná fram að ganga, jafnvel þótt hún njóti stuðnings allra stjórnarandstöðuþingmanna, sem ég vona að hún geri. En staðreyndin er að margir í stjórnarliðinu eru ósáttir við störf þessarar ríkisstjórnar og einhverjir þeirra lýstu því yfir opinberlega að þeir myndu ekki verja hæstv. fyrrverandi matvælaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, vantrausti ef það kæmi fram. Þingmenn Framsóknar segjast iðulega sammála stjórnarandstöðunni um hin ýmsu velferðarmál og jafnvel ráðherrar taka undir með stjórnarandstöðu um að þörf sé á hækkun bankaskatts, aðgerðum gegn græðgisvæddum leigufélögum og Airbnb, svo að dæmi séu nefnd. Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafa látið ýmislegt yfir sig ganga í þessu stjórnarstarfi enda skal engan furða, störf ríkisstjórnarinnar virðast yfirleitt ganga út á það að grafa undan öllu því sem stefna Vinstri grænna boðar. Flokkurinn kokgleypir ýmislegt þó að það standi í honum en sparkar þó reglulega frá sér með því að halda flokksþing þar sem gefnar eru út yfirlýsingar í andstöðu við verkefnin sem þau síðan vinna á Alþingi Íslendinga. Það er skoðun margra að límið í ríkisstjórninni hafa verið fráfarandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir. Hún hafi miðlað málum og ítrekað komið í veg fyrir stjórnarslit. Nú er Katrín horfin á braut og límið með henni.

Ég tek það fram, herra forseti, að ekki ein einasta innviðastoð samfélagsins stendur á traustum grunni, nema ein og það er stoð auðvalds og bankaelítu. Allar aðrar stoðir síðustu ár hafa linast upp, standa nú á brauðfótum og hafa í rauninni farið hnignandi ár frá ári. Og það er ekki bara inni í þessum sal sem við vitum það, þjóðin er öll meðvituð um það — öll. Og hverjir skyldu bera ábyrgð á þessu ástandi? Hverjir bera ábyrgð á því sem fram fer í samfélaginu í dag? Hverjir eru kjörnir til þess að ala önn og hafa umhyggju fyrir samfélaginu í heild sinni? Það er ríkisstjórnin. Að sjálfsögðu er það ríkisstjórnin.

Í baráttunni gegn verðbólgu og okurvöxtum hefur þessi ríkisstjórn hent inn handklæðinu. Hún hefur skellt skollaeyrum við öllum varnaðarorðum sem til hennar hefur verið beint, þar á meðal af þingmönnum Flokks fólksins sem ítrekað vöruðu við að verðbólgan gæti verið handan við hornið. Steinsofandi og aðgerðalaus hefur þessi ríkisstjórn siglt þjóðarskútunni fram af hengiflugi efnahagslegs óstöðugleika. Í stað þess að reisa varnir um heimilin gegn verðbólgu og vaxtaokri þá aðhafðist ríkisstjórnin lítið sem ekki neitt. Stýrivaxtahækkanir Seðlabankans hafa nú gengið af þjóðinni nánast dauðri. Hér er meira og minna allt botnfrosið, enda var það jú víst markmiðið með öllu saman. Hefur ríkisstjórnin eitthvað reynt að grípa inn í hvað það varðar? Nei. Hvað gerir ríkisstjórnin þegar þjóðin hrópar á hjálp? Ekki neitt. Í besta falli fáum við glærusýningar og eitthvað fallegt á blaði, einhvern stýrihóp, aðgerðahóp sem er að velta því upp hvort það sé virkilega þannig að þeir sem eiga ekki mat á diskinn eigi ekki mat á diskinn, að þeir sem hafa ekki þak yfir höfuðið hafi ekki þak yfir höfuðið og að þeir sem hafa orðið fíkninni að bráð hafi raunverulega orðið fíkninni að bráð.

Talandi um spillingu: Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar hafa ítrekað brotið gegn embættisskyldum sínum. Í stuttu máli: Bjarni Benediktsson, hæstv. ráðherra, braut stjórnsýslulög þegar hann gætti ekki að hæfi sínum við sölu á Íslandsbanka. Svandís Svavarsdóttir, hæstv. ráðherra, braut meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, lögmætisreglu og stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, hæstv. ráðherra, braut gegn vilja Alþingis með því að stinga ályktun Alþingis um hagsmunafulltrúa aldraðra niður í skúffu. Mig langar að nefna hér annan hæstv. ráðherra sem hefur komið verulega á óvart, Sigurð Inga Jóhannsson, hæstv. núverandi fjármálaráðherra, sem hefur reynt sitt ýtrasta til að þagga niður í stjórnarmanni Byggðastofnunar sem gagnrýndi meðferð byggðakvóta sem litast af spillingu og frændhygli.

Ég vil í lokin, herra forseti, höfða til þingmanna stjórnarflokkanna, að hlusta á eigin samvisku og taka tillit til vilja kjósenda. Ekki setja þegjandi samþykki við áframhaldandi óstjórn. Leyfið kjósendum að leggja dóm sinn á störf þessarar ríkisstjórnar. Ekki skipa í forsæti ríkisstjórnarinnar ráðherra sem hefur þegar stigið til hliðar vegna þess að hann braut lög. Ég biðla til óbreyttra þingmanna stjórnarflokkanna að leyfa ekki ráðherranum að komast upp með þessa sjálftöku valdsins. Gefum þjóðinni val um næstu ríkisstjórn. Rjúfum þing í sumar og boðum til almennra alþingiskosninga þann 7. september næstkomandi. Þjóðin á það skilið.