154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:18]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að fá að segja að mér þykir þetta sorgleg stund hér á Alþingi. Við þekkjum hv. þingmann sem flutti hér sína tillögu. Við vitum að hún er bæði sniðug og smellin og er ötul baráttukona fyrir sín baráttumál og hefur gert það oft vel og oft sniðuglega svo eftirtektarvert er. Ég verð nú að segja að fyrir mitt leyti mættu kannski oft staðreyndir mála fá örlítið meira pláss í þeim málflutningi en látum það liggja á milli hluta að þessu sinni. En við urðum vör við þá tilburði líka í þessari ræðu hér, því miður. Ég verð að fá að segja, herra forseti, að það er ekkert nýtt í því að minni hlutinn vill gjarnan vera í meiri hluta og finnst að svo ætti að vera. Það er heldur ekkert nýtt í því að minni hlutinn vill að sjálfsögðu fá kosningar þegar hann er ekki í meiri hluta. Nú er það hins vegar svo að þessi átta daga gamla ríkisstjórn er með mjög sterkt lýðræðislegt umboð, mjög sterkt, og það eru virkilega mikilvæg verkefni fyrir þetta samfélag sem bíða. Þannig að ég velti fyrir mér, herra forseti: Erum við núna að sjá gamalkunna tafaleiki af hálfu minni hlutans, jafnvel vegna ótta við það að þessi ríkisstjórn ætlar sér einmitt að klára þau mikilvægu mál sem bíða fyrir samfélagið? Ég verð að segja, herra forseti, að þessi tillaga sem mér sýnist bæði byggð á sandi og sýndarmennsku ber vott um það að hérna á að tefja fyrir að þessi lýðræðislega sterka ríkisstjórn klári þau mál sem hún ætlar sér.