154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:20]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Byggð á sandi, segir hún, þessi vantrauststillaga. Það er rangt. En það er rétt að þessi kona sem hér stendur hefur verið ötull baráttumaður gegn fátækt og hrópað hér úr þessum ræðustóli í tæp sjö ár um hjálp fyrir þá sem bágast standa í samfélaginu og það er alveg á hreinu að það hefur sannarlega verið ekki bara fyrir daufum eyrum heldur nánast algerlega heyrnarlausum eyrum ríkisstjórnarflokkanna. Það er í rauninni í engu sem þessi stjórnarandstaða er að sækja í einhver völd, enda sagði ég það hér í minni flutningsræðu að við höfum virt lýðræðið ötullega fram á þennan dag þegar við getum ekki lengur horft fram hjá því gegndarlausa valdabrölti sem á sér hér stað og algjörlega án þess að lögbrot sem eru framin hér af æðstu ráðamönnum þjóðarinnar séu í rauninni að hafa einhverjar afleiðingar. Það eina sem er óttalegt hér í þessum þingsal er ríkisstjórn sem hangir hér valdanna vegna eins og hundur á roði vegna þess að þau eru hrædd við kjósendur í landinu. Þau vilja ekki kosningar vegna þess að þau standa verulega höllum fæti hvað lýtur að stuðningi þjóðarinnar og kjósenda.