154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:22]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kjósendur í þessu landi skiluðu þeim meiri hluta sem myndar og stendur að þessari ríkisstjórn. Þar eru 38 þingmenn af 63. Þeir þingmenn sem standa að þessari vantrauststillögu eru 12 þannig að þeir sem standa að vantrauststillögunni eru 12 á meðan meiri hlutinn sem ætlar að klára verk fyrir samfélagið og hefur skýrt lýðræðislegt umboð er 38. Við þekkjum fyrir hvaða flokk hv. þingmaður fer fyrir og hinn flokkurinn sem tekur þátt í þessari vantrauststillögu eru Píratar. Við þekkjum það auðvitað héðan að þeim leiðist ekkert að þyrla upp rykinu og það er gott og vel. Það er þeirra réttur. Þau hafa líka einnig áhuga á flísinni í auga náungans oft heldur en bjálkanum í sínu eigin og það er eitthvað sem þau verða bara að eiga við sig. En mig langar að fá að nota tækifærið, forseti, og fá að spyrja hv. þingmann: Af hverju eru eingöngu 12 stjórnarandstöðuþingmenn sem standa að þessari vantrauststillögu? Af hverju er ekki öll stjórnarandstaðan með á þessari vantrauststillögu ef hún er ekki eingöngu byggð á sandi og sýndarmennsku? Var stjórnarandstöðunni ekki boðið að taka þátt eða fannst stjórnarandstöðunni, restinni af henni, kannski ekki ástæða til að fara í þessa vegferð þar sem er eingöngu verið að vanvirða lýðræðið og þetta mikilvæga hús og verkefnin sem bíða?