154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:24]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig nú átta mig á því hver tilgangurinn er með þeirri umræðu sem hér fer fram. Ég tek þó undir með hv. þm. Hildi Sverrisdóttur sem veltir því upp hvernig standi á því að það séu þá einvörðungu einhverjir 11 þingmenn undir forystu hv. þm. Ingu Sæland sem leggja í þessa vegferð. Ég held hins vegar að það sé lágmarkskrafa í ljósi orða hv. þingmanns í garð fyrrum hæstv. matvælaráðherra að farið sé rétt með staðreyndir. Það er algerlega ólíðandi, virðulegi forseti, að hér gangi hv. þingmenn um og tali um að hér hafi verið framkvæmt stjórnarskrárbrot. En líklega var það nú eitt í ræðu hv. þingmanns sem átti við rök að styðjast og það var að umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að lagastoð reglugerðarinnar hefði ekki verið nægilega skýr. Það er ljóst að ráðherra misbeitti ekki valdi sínu. Reglugerðin var ekki brot á aðgreiningarreglum stjórnsýsluréttar og málið var ekki lagt í rangan lagalegan farveg. Það ætti hv. þingmaður að þekkja, hafandi verið sammála okkur mörgum hér um að dýraníð eigi ekki að líðast í íslensku samfélagi. Ráðherra braut ekki stjórnsýslulög, réttmætisregluna eða stjórnarskrá, svo það komi fram.