154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skil það fullkomlega að hann skuli koma hér og verja vígið, en að ætla að gera lítið úr áliti umboðsmanns og gera því skóna að það sé nánast innihaldslaust blaður — ég tek ekki þátt í því. Það er algerlega ljóst og kemur gjörsamlega fram, eins og ég vitnaði til orðrétt, að með þessari reglugerð þá braut ráðherra meðalhófsreglu og lögmætisregluna. Hv. þingmaður var nú eitthvað aðeins að ruglast á reglunum þarna. Og um leið og brotið er á þeim hluta lögmætisreglunnar sem þarna er undir þá leiðir það beint að því að 75. gr. stjórnarskrár um atvinnufrelsi er líka brotin. Við skulum sjá til, hv. þingmaður. Ég ætla að vona að ég hafi rangt fyrir mér alla leið og að það sé ekkert sem eigi eftir að koma hér fram um það að hæstv. ráðherra hafi bakað ríkinu milljarða í skaðabætur. Við skulum vona að það sé vegna þess að íslenskir dómstólar eiga þá eftir að eiga síðasta orðið og við skulum bara bíða eftir því.

En það var eitthvað annað voðalega sniðugt sem hv. þingmaður sagði sem er eiginlega hrokkið úr mér en ég ætla að vona að það hafi hrokkið í gírinn þegar ég kem í síðara svar.