154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit náttúrlega ekki alveg hvort ég á að endurtaka mig og lesa aftur beint upp úr áliti umboðsmanns en ég gæti alveg gert það. Ef hv. þingmaður getur ekki lesið sér sjálfur til gagns þá get ég svo sem gert það fyrir hann, það er ekki það. En það breytir ekki þeirri staðreynd að það hefur verið gengið — já, alveg rétt, nú man ég hverju hv. þingmaður var að ýja að áðan; að ég sem hann héldi að væri að berjast gegn dýraníði — það er nákvæmlega það sem ég hef gert alla mína ævi. Þetta álit umboðsmanns Alþingis snýst ekki um hvalveiðar. Það snýst um embættisverk ráðherrans og hvernig hún, daginn áður en átti að hefja þessar veiðar, setur á reglugerð sem henni hefði verið í lófa lagið að vera búin að gera miklu fyrr — miklu fyrr. Hún er að baka íslenska ríkinu milljarða króna skaðabætur með framferði sínu. Ég get bara sagt það hér: Ég er meðflutningsmaður hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar á frumvarpi um algert bann við hvalveiðum, svo það sé sagt, og það munu fáir hafa hærra hér í þessu húsi og hafa haft hærra hér í þessu húsi í baráttunni gegn dýraníði en Inga Sæland.