154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:29]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að segja hér í upphafi að ég held að allir þeir sem taka sæti á Alþingi eigi það sammerkt að fyllast stolti af því að fá að taka þátt í löggjafarsamkomunni og skynji líka mikla ábyrgð á því að leggja sitt af mörkum til þess að vel megi takast til hér við þingstörfin, að hægt sé að skipuleggja þingstörfin og samspil við ríkisstjórn hverju sinni með þeim hætti að vilji þjóðarinnar, eins og hann birtist í lýðræðislegum kosningum, nái fram að ganga. Svo gengur okkur svona misjafnlega frá einum tíma til annars að eiga um þetta samstarf eða að forgangsraða málum þannig hér í þinginu að breið sátt geti tekist um það.

Svo koma líka stundir þar sem manni finnst að okkur sé algerlega að mistakast. Ég spyr mig hér strax í upphafi þessarar umræðu þegar borið er upp vantraust á ríkisstjórnina í þeim tilgangi að boða til kosninga og beinlínis látið fylgja að bersýnilega njóti tillagan ekki stuðnings í þinginu: Til hvers erum við að sóa tíma okkar í svona mál? Er í alvörunni ekki þá bara betra að efna til almennrar umræðu um stjórnmálaástandið, að fá hér sérstakar umræður um það hvert ríkisstjórnin vill stefna í stórum stefnumálum hennar? Við áttum reyndar þá umræðu hér fyrir nokkrum dögum. Eða erum við virkilega ekki betur stödd en svo að þurfa að eyða tíma þingsins í tillögu af þessum toga í þeim tilgangi einum að stjórnarandstaðan fái athygli á sína sýn á þjóðfélagsmálin eins og hún er frá einum tíma til annars? Þegar látið er fylgja að tillagan sé bersýnilega fyrir fram fallin þá hlýtur maður að spyrja sig að því hver tilgangurinn sé með því að efna til umræðunnar, annar en sá að fá athygli, að hreyfa einhverjum sjónarmiðum. En það er tiltölulega léttvægur tilgangur í samanburði við alvarleika tillögunnar sem slíkrar, vegna þess að tillagan gengur út á það að fella stjórnina og boða til kosninga í landinu.

Þess vegna vil ég segja að þetta er ákveðin glundroðatillaga, tillaga sem fer í raun og veru gegn öllu því helsta sem þjóðin þarf á að halda um þessar mundir. Látum vera þó að ekki væru forsetakosningar, en þær eru reyndar handan við hornið, alveg næg ástæða til þess aðeins að anda í kviðinn. Þar fyrir utan eru öll hin úrlausnarmálin hér fyrir þinginu; áratugavinna að baki í öryrkjamálinu, frumvörp um stjórnkerfi fyrir fiskeldi í landinu, uppfærsla á öllu því regluverki og lögum eftir ábendingar um að við þurfum að gera þar betur, við erum hér með fjölda frumvarpa sem snerta stöðuna í hælisleitendamálum og löggæslu í landinu, ég gæti haldið áfram að tala um það sem snýr að einföldun í stjórnkerfi orkumála o.s.frv. Þetta þing á að starfa hér fram í júní, hefur öll þessi stóru verkefni í fanginu og það liggur fyrir að það er meiri hluti fyrir því að halda þeirri vinnu áfram. En það sem við fáum frá stjórnarandstöðunni þessi dægrin eru málalengingar í minnstu málum, sem bera keim af málþófi að tilefnislausu til að koma þinginu í ákveðið þrönga stöðu, og svo vantrauststillaga sem fyrir fram er fallin að mati flutningsmanns tillögunnar. Þetta er ekki einn af þeim dögum sem manni finnst þingið rísa undir kröfum og væntingum fólksins í landinu.

Hver er sá veruleiki sem við okkur blasir til að mynda í ljósi nýframkominnar fjármálaáætlunar? Staðan er þessi: Hér er mikill hagvöxtur, meiri heldur en við höfum séð í nágrannalöndunum. Hér er mjög lítið atvinnuleysi, flestir hafa vinnu og það horfir ekki til þess að það sé að fara að breytast. Hér er, eins og lengi hefur verið, einhver mesti jöfnuður á byggðu bóli, blómstrandi nýsköpun, fjöldi nýrra tækifæra að verða til, til að mynda í landeigandi víða um landið. Verðbólga fer lækkandi, hún fer lækkandi og það er mikilvægt og nýframkomin fjármálaáætlun mun styðja við þá þróun áfram. Kaupmáttur hefur vaxið verulega undanfarinn áratug eins og sjá má af skýringum í nýframkominni fjármálaáætlun. Með myndrænni framsetningu er þar dregið mjög skýrt fram hvernig við höfum séð lífskjör Íslendinga þróast langt fram úr því sem hefur verið að gerast í nágrannalöndunum. Skuldastaða heimilanna er sömuleiðis lág í norrænum samanburði. Við höfum á síðustu tíu árum umbreytt þeirri stöðu úr því að vera sérstakt efnahagslegt vandamál yfir í það að vera sögulega lágar skuldir. Hér er því haldið fram að ekki sé verið að byggja upp innviðina. Þetta er alrangt. Við sjáum hér í næsta nágrenni nánast, við þinghúsið, einhverjar mestu framkvæmdir Íslandssögunnar við byggingu nýs Landspítala sem þingið hefur tryggt fjármögnun á umfram það sem hægt hefur verið að framkvæma fyrir.

En já, það verða áfram áskoranir. Þegar landsmönnum fjölgar og ferðamönnum fjölgar sömuleiðis þá stöndum við frammi fyrir gríðarlega miklum áskorunum í samgöngukerfinu. Á flugvellinum, þar sem standa yfir tugmilljarða framkvæmdir, og víðar í innviðum okkar er þörf á frekari og áframhaldandi fjárfestingu. Það er ekkert nýtt, það er ekkert séríslenskt, það er einfaldlega metnaðarmál okkar að geta haldið áfram að byggja upp innviðina svo að landsmenn geti notið sem bestra lífskjara til lengri tíma.

Ef ekki væri nokkuð almenn jákvæð staða í efnahagsmálum þá hefðu heldur engar forsendur verið fyrir því að gera fjögurra ára kjarasamninga. Það er í sjálfu sér alveg einstakt dæmi um það að vinnumarkaðurinn treystir þeirri umgjörð sem hann horfir á, hefur treyst ríkisstjórninni til að standa með samningunum og horfir til þess að á næstu fjórum árum þurfi ekki að taka upp kjarasamninga að nýju. Það eru bara, sem sérstök skilaboð frá vinnumarkaðnum, gríðarlega jákvæð teikn um stöðuna í dag og horfurnar fram á við sem í raun og veru, þótt við hefðum ekkert annað en kjarasamningana, eru til vitnis um að hv. þingmaður er á villigötum þegar hún heldur því fram að hér ríki svo mikil óeining og ófremdarástand á hverju sviðinu á eftir öðru að ekki verði lengur við það búið og boða verði til kosninga. Það er í mínum huga ekkert annað en eins konar hugmynd að pólitískum óstöðugleika og tilefnislausum glundroða í íslenskum stjórnmálum. Við stöndum ekki á heljarþröm í efnahagsmálum eða í þeim stóru málaflokkum sem hér ríður mest á að fái athygli og þingið sinni.

Ég hef hér talið upp nokkur mál sem ég tel að þingið eigi að beina kröftum sínum að og ég ætla bara að vekja athygli á því að samkvæmt starfsáætlun eru dagarnir ekkert allt of margir til þess að búa um þau mál og koma þeim í örugga höfn. Þess vegna skiptir miklu að það geti tekist samstarf milli allra þingmanna um forgangsröðun mála og framgöngu dag fyrir dag, þá sem eftir lifa af þessari sömu starfsáætlun. Án þess sé ég ekki annað en að þingið bregðist því trausti sem fólkið í landinu hefur til Alþingis Íslendinga, bregðist því trausti að geta leitt til lykta með lýðræðislegum hætti áherslumál sem hér eru fram komin og hafa verið undirbúin af ólíkum ráðuneytum og mikið liggur við að fái afgreiðslu á þinginu. Málþóf dag eftir dag í smærri málum mun ekki hjálpa til þess, ósamkomulag um dagskrá þingsins mun ekki hjálpa til þess, en vonandi mun atkvæðagreiðslan hér á eftir, sem mun sýna fram á mjög sterkan meiri hluta stjórnarflokkanna til þess að halda samstarfi sínu áfram út kjörtímabilið, verða til þess.