154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Árið 2017 stofnaði þessi ríkisstjórn til stjórnarsamstarfs og eitt af helstu markmiðunum var að efla traust á stjórnmálum. Sú stefna hvarf árið 2021 þegar stjórnin endurnýjaði hjúskaparheit sín enda mistókst henni herfilega að uppfylla það loforð. Hér er verið að tala um að það sé einhvers konar vanvirðing við lýðræðið að ræða traust til ráðherra þegar það var upprunalega eitt af helstu markmiðum ríkisstjórnarinnar að efla traust á stjórnmálum. Við erum sökuð um að eyða tíma þingsins. Hversu miklum tíma hefur ríkisstjórnin eytt af tíma þingsins í pólitískan óstöðugleika með ráðherraskiptum, ríkisstjórnarskiptum, málum sem ríkisstjórnin er ekki sammála um o.s.frv.? Þegar við ætlum að ræða traust og þá sérstaklega vantraust sem hefur birst okkur í rúmlega 41.000 rafrænt auðkenndum undirskriftum, 20% þeirra sem tóku þátt í síðustu alþingiskosningum, hvar er meira viðeigandi staður að gera það heldur en við vantrauststillögu? Er það ekki einmitt vettvangur lýðræðisins að ræða vantraust undir vantrauststillögu? Var ekki hæstv. forsætisráðherra að kalla eftir málefnalegri umræðu um mál í stefnuræðu sinni fyrir nokkrum dögum síðan? Hérna ræðum við vantraust í tillögu um vantraust til ráðherra. Það er efnislega rétti staðurinn, lýðræðislegi staðurinn til að ræða nákvæmlega það mál. Hvernig líst hæstv. forsætisráðherra á upprunaleg markmið þessarar ríkisstjórnar um að efla traust á stjórnmálum miðað við þá stöðu sem er í samfélaginu í dag?