154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:42]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég vék að í mínu máli getur verið fróðlegt að ræða um stöðu landsmálanna og þjóðfélagsumræðuna með tilliti til trausts á stjórnmálastarfi í landinu o.s.frv. En það er hins vegar mín skoðun að það að leggja fram tillögu á Alþingi til þess að lýsa vantrausti á ríkisstjórnina og krefjast kosninga í landinu eigi síðar en í haust sé algerlega án tilefnis og að tíma þingsins væri betur varið í eitthvað uppbyggilegra fyrir þjóðina, að sýna að við getum rætt með málefnalegum hætti um ólíkar tillögur sem liggja fyrir þinginu, breytingar á frumvörpum eða þingsályktunartillögum, skoða nefndarálit og ræða hvernig við höldum áfram. Hvaða skilaboð viljum við senda Grindvíkingum við þessar aðstæður? Að við séum svo ósammála hér á þinginu að við getum ekki annað heldur en bara hlaupist undan verkum og boða til kosninga? Eða ætlum við að sýna fólki sem þarf að treysta á ríkisstjórn og öflugt Alþingi að við séum vandanum vaxin? Ég hallast að hinu síðarnefnda.

Hvar á að ræða vantraust ef ekki undir vantrauststillögu? Ég verð bara, virðulegi forseti, að frábiðja mér að svara þessu. Það er hægt að ræða vantraust alla daga. Það er hægt að skrifa greinar og fara í fyrirspurnatíma. Ræðið vantraust alla daga og gerið svo bara upp við kjósendur þegar að því kemur. Það sem við ætlum að gera í þessari ríkisstjórn er að tala við fólkið í landinu um það sem á því brennur og reyna að greiða götu fólks sem þarf á stjórnvöldum að halda, gera breytingar á lögum þar sem þess gerist þörf miðað við aðstæður, svara kalli landsmanna um framfaramál og greiða götu þeirra sem vilja láta til sín taka. (Forseti hringir.) Þetta er það sem ríkisstjórnin hyggst einbeita sér að. Aðrir geta rætt vantraust og stjórnmálaástandið og borið hér upp tillögur sem taka frá tíma fyrir þarfari mál. Það er bara þeirra mál.