154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er svo merkilegt að ríkisstjórnin, eftir sex og hálft ár af því að reyna að klára stóru málin, finnur sig rosalega knúna til að klára það svona á síðustu metrunum. Þannig virkar þetta einhvern veginn alla daga. Eins og ég sagði áðan þá kallaði hæstv. forsætisráðherra eftir málefnalegri umræðu um málin sem hann kallar síðan einhver smámál og ýjar að því að það sé málþóf í gangi. Hvort er það? Hvort erum við að stunda málefnalega umræðu um smámál ríkisstjórnarinnar eða erum við í málþófi? Það getur ekki verið hvort tveggja, (Gripið fram í.) efnisleg umræða og málþóf. Er hvort tveggja mögulegt á sama tíma? Mér finnst mjög áhugavert að heyra skoðanir hæstv. forsætisráðherra á því og hlakka til að heyra rökin fyrir því. Málefnaleg umræða. Þetta er merkilegt. Við kjósum ekki meiri hluta í alþingiskosningum. Samt segir ríkisstjórnin sem hópaði sig saman til þess að mynda meiri hluta á Alþingi og vísar til lýðræðislegs umboðs til þess — það tvennt er ekki það sama, lýðræðislegt umboð hvers flokks fyrir sig og lýðræðislegt umboð ríkisstjórnarinnar. Við erum með skemmtilega áhugavert kosningakerfi þar sem við kjósum einstaklinga en samt í raun og veru flokka og endum síðan með ríkisstjórn flokka sem kannski enginn kaus eða réttara sagt, sem í raun og veru enginn kaus.

Hvað þurfum við að gera til að bæta lýðræðið og gera betra fyrir land og þjóð? Það er spurning sem við eigum alltaf að spyrja okkur. Við þurfum að svara því á heiðarlegan hátt og um það snýst umræðan hérna. Núna er umræðuefnið vantraust fólks sem birtist í fjöldamörgum undirskriftum sem eru rafrænt auðkenndar og það er ekkert smámál að safna slíkum undirskriftum. Við höfum séð á undanförnum árum að stofnað hefur verið til ýmissa undirskriftalista en ekki margar undirskriftir fengist. En í þetta skiptið eru það 20% þeirra sem kusu í síðustu kosningum. Það er eitthvað.