154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

1038. mál
[17:47]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekkert sem breytir þeirri skoðun minni að tíma okkar væri betur varið til að ræða tillögur sem liggja fyrir þinginu í frumvarpsformi eða þingsályktunartillögum. Já, já, það birtast skoðanakannanir og það eru undirskriftalistar teknir saman. Ég man þá tíð að Píratar mældust í 35% og þá hefðu Píratar eflaust viljað ganga til kosninga og ég man eftir ríkisstjórn sem lagði fyrir þingið mál og fékk samþykkt sem rataði í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem 98% þjóðarinnar sögðust andvíg málinu. Stjórnin hélt síðan áfram eftir að þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu var lokið. Það eru ákveðnar reglur hér um framkvæmd lýðræðis, m.a. um það hvernig við myndum meiri hluta á þingi og komum saman ríkisstjórnum sem mér finnst að okkur beri að virða. Það er hægt að hafa skoðun á kosningakerfinu og því hvernig við erum með fulltrúalýðræði framkvæmt á Íslandi. Þetta er allt saman áhugaverðar pælingar, við skulum bara taka þær einhvern tímann á öðrum tíma í öðru samhengi. Hér erum við að ræða um það hvort ríkisstjórnin eigi að víkja og boða eigi til kosninga. Það liggur fyrir frá frummælanda málsins. Það eru engar líkur á því að það verði samþykkt. Næsta mál á dagskrá, takk.