154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

virðisaukaskattur og kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða.

917. mál
[22:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, sem eru lög nr. 50/1988, og lögum um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, sem eru nr. 101/2023. Frumvarpið er á þskj. 1362 og er 917. mál þingsins.

Áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda 20.–28. febrúar síðastliðinn og drög að frumvarpinu voru kynnt til umsagnar í samráðsgáttinni 4.–11. mars síðastliðinn. Að auki var við vinnslu frumvarpsins haft samráð við Skattinn, Samgöngustofu, Samtök iðnaðarins, Advel lögmenn ehf., Deloitte Legal ehf. og KPMG Law ehf.

Virðulegur forseti. Ég ætla fyrst að fjalla um breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Annars vegar eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna um sölu á þjónustu til aðila, atvinnufyrirtækja sem og annarra aðila sem eiga hvorki heimilisfesti hér á landi, lögheimili né stunda atvinnustarfsemi frá fastri starfsstöð. Hins vegar er lagt til að bætt verði við ákvæði til bráðabirgða XLVIII í lögunum um upplýsingagjöf ökutækjaleigna til Skattsins um nýtingu á þeirri virðisaukaskattsívilnun sem ákvæðið mælir fyrir um.

Vegna fyrra máls, virðisaukaskatts vegna sölu á þjónustu milli landa, er fjallað um fjarlægðarregluna eða, með leyfi forseta, „the destination principles“, sem er meginregla í innheimtu virðisaukaskatts í milliríkjaviðskiptum. Er hún lögð til grundvallar í alþjóðlegum leiðbeiningum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um virðisaukaskatt. Fjarlægðarreglan felur í sér að skattlagning í milliríkjaviðskiptum skuli eiga sér stað í lögsögu þess ríkis þar sem endanleg neysla eða nýting þjónustunnar á sér stað. Þegar kaupandi þjónustu er atvinnufyrirtæki og verslar sem sagt frá einu atvinnufyrirtæki til annars er gert ráð fyrir að þjónusta teljist vera nýtt og þar með skattlögð þar sem kaupandi hefur heimilisfesti eða fasta starfsstöð. Þegar kaupandi þjónustu er ekki atvinnufyrirtæki, þ.e. beint við neytanda, er hins vegar gert ráð fyrir að þjónustan teljist nýtt og þar með skattlögð þar sem seljandi hefur heimilisfesti eða fasta starfsstöð. Heimilt er að víkja frá fjarlægðarreglunni í fyrir fram ákveðnum tilvikum ef reglan er ekki talin ná markmið sínu.

OECD hefur mælst til þess að aðildarríki stofnunarinnar taki mið af fyrrnefndum leiðbeiningum við innleiðingu löggjafar á sviði virðisaukaskatts vegna sölu á þjónustu milli landa.

Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt er sala á þjónustu til atvinnufyrirtækja sem hvorki hafa heimilisfesti hér á landi né stunda hér atvinnustarfsemi frá fastri starfsstöð undanþegin skattskyldri veltu ef þjónustan er veitt yfir landamæri frá seljanda á Íslandi til kaupanda sem er atvinnufyrirtæki með heimilisfesti eða fasta starfsstöð erlendis. Í þessu felst að sala á þjónustu sem á sér stað og er raunverulega nýtt á Íslandi er ekki talin veitt erlendis og þar með nýtt erlendis, og þjónustan því skattskyld hér á landi. Þess háttar þjónusta er ekki tilgreind sérstaklega í lögunum og því þarf að meta í hverju tilviki fyrir sig hvar þjónusta telst veitt og þar með nýtt. Slíkt fyrirkomulag er ekki að fullu í samræmi við fjarlægðarregluna eins og hún er sett fram í leiðbeiningum OECD.

Í tilskipun Evrópusambandsins um sameiginlegt virðisaukaskattskerfi nr. 2006/112/EB eru hins vegar allar undanþágur frá fjarlægðarreglunni tilgreindar, þ.e. undanþágur frá þeirri meginreglu að þjónusta skuli skattlögð í því ríki þar sem atvinnufyrirtæki er með heimilisfesti eða fasta starfsstöð.

Lagt er til að sams konar fyrirkomulag og kveðið er á um í virðisaukaskattstilskipun Evrópusambandsins verði tekið upp í lögum um virðisaukaskatt. Markmiðið er að tryggja aukinn skýrleika þeirra lagaákvæða sem um ræðir og frekari fyrirsjáanleika um framkvæmdina. Breytingunni er enn fremur ætlað að styrkja samkeppnisstöðu Íslands þegar kemur að alþjóðaviðskiptum þar sem lagareglur um meðhöndlun virðisaukaskatts í viðskiptum atvinnufyrirtækja milli landa verða þá sambærilegar þeim reglum sem er að finna í virðisaukaskattstilskipuninni.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til minni háttar breytingar á ákvæðum laganna að því er varðar sölu á þjónustu til annarra aðila en atvinnufyrirtækja sem hafa ekki heimilisfesti, lögheimili, varanlega búsetu eða dveljast ekki að jafnaði hér á landi í þeim tilgangi að auka skýrleika lagaákvæðanna og tryggja frekari fyrirsjáanleika um framkvæmdina.

Varðandi síðan upplýsingagjöf ökutækjaleigna til Skattsins um nýtingu á virðisaukaskattsívilnun þá kemur fram að í ákvæði til bráðabirgða XLVIII í lögum um virðisaukaskatt er ökutækjaleigum heimilt við endursölu á rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiðum að undanþiggja tiltekna fjárhæð frá skattskyldri veltu að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru í ákvæðinu. Með frumvarpi þessu er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við bráðabirgðaákvæðið um að ef ökutækjaleiga nýtir heimildina beri henni, samhliða skilum á virðisaukaskattsskýrslu, að upplýsa Skattinn um það. Þess ber að geta að ökutækjaleigur lutu sams konar upplýsingaskyldu á árunum 2021–2023 og er mikilvægt að Skatturinn hafi áfram þessar upplýsingar undir höndum meðan virðisaukaskattsívilnunin er í gildi.

Varðandi breytingar á lögum um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, nr. 101/2023. Lög um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, nr. 101/2023, voru samþykkt á Alþingi í desember síðastliðinn. Talið er nauðsynlegt að skýra nánar tiltekin atriði varðandi framkvæmd hins nýja gjalds, þ.m.t. hlutverk Samgöngustofu annars vegar og ríkisskattstjóra hins vegar, vegna skráningar á stöðu akstursmælis bifreiðar. Þá er m.a. lögð til lögfesting á nýju ákvæði um refsikennd viðurlög með það að leiðarljósi að tryggja betur nauðsynleg almenn og sérstök varnaðaráhrif. Einnig eru lagðar til breytingar þar sem kveðið verði á um heimild ríkisskattstjóra til innheimtu á dráttarvöxtum, innheimtukostnaði og vanskráningargjaldi vegna gjaldfallins kílómetragjalds.

Jafnframt er lagt til að tvö ný ákvæði til bráðabirgða verði lögfest þar sem fjallað er um skráningu á stöðu akstursmælis á yfirstandandi ári, þ.m.t. vegna eigendaskipta, þegar um er að ræða aðrar bifreiðar en þær sem gjaldskyldar eru samkvæmt lögunum. Markmið slíkrar skráningar á stöðu akstursmælis er að fækka mögulegum áætlunum ríkisskattstjóra fyrir árið 2025 og undirbyggja áreiðanleika gagna vegna skráningar á kílómetrastöðu allra bifreiða fyrir árið 2025.

Ekki er gert ráð fyrir því að áformaðar breytingar á ákvæðum laga um virðisaukaskatt að því er varðar sölu á þjónustu á milli landa hafi í för með sér bein og fyrirsjáanleg fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Breytingunum er, eins og áður var sagt, fyrst og fremst ætlað að tryggja aukinn skýrleika um efni þeirra lagareglna sem um ræðir og framkvæmdina, auk þess að styrkja samkeppnisstöðu Íslands þegar kemur að meðhöndlun virðisaukaskatts í viðskiptum milli ríkja.

Gera má ráð fyrir að breytingarnar stuðli enn frekar að því að erlend atvinnufyrirtæki velji að eiga viðskipti við atvinnufyrirtæki hér á landi þar sem reglur hérlendis um meðhöndlun virðisaukaskatts í viðskiptum milli ríkja verða sambærilegar þeim sem gilda í nágrannaríkjum okkar.

Ekki er gert ráð fyrir að áformaðar breytingar á lögum um virðisaukaskatt um upplýsingagjöf ökutækjaleigna til Skattsins um nýtingu á virðisaukaskattsívilnun hafi í för með sér bein og fyrirsjáanleg áhrif á ríkissjóð.

Þá er heldur ekki gert ráð fyrir að breytingar á lögum um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða hafi í för með sér bein og fyrirsjáanleg fjárhagsleg áhrif á ríkissjóð.

Þó má gera ráð fyrir að þær breytingar sem varða heimild til innheimtu á dráttarvöxtum og innheimtukostnaði vegna innheimtu gjaldfallins kílómetragjalds og nýtt ákvæði þar sem kveðið er á um refsikennd viðurlög sé til þess fallið að hafa jákvæð áhrif á ríkissjóð, annars vegar vegna betri heimta á gjaldinu og hins vegar vegna þeirra varnaðaráhrifa sem felast í refsikenndum viðurlögum.

Gert er ráð fyrir að breytingarnar muni fyrst og fremst leiða til aukins skýrleika og fyrirsjáanleika í skattframkvæmd.

Virðulegi forseti. Að þessi sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.