154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

tekjuskattur.

918. mál
[23:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér með fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, en með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða barnabætur og sérstakan vaxtastuðning og eru þær hluti af stuðningi ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna langtímakjarasamninga á vinnumarkaði í mars síðastliðnum. Við vinnslu þess var haft samráð við Fjársýsluna, Landssamtök lífeyrissjóða, Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu og Skattinn vegna einstakra ákvæða frumvarpsins.

Fyrst vil ég nefna breytingar á barnabótakerfinu. Undanfarin tvö ár hafa þær breytingar verið gerðar að stuðningur til barnafjölskyldna er nú betri og skilvirkari, fjölskyldum sem njóta stuðnings hefur fjölgað, dregið hefur verið úr skerðingum, jaðarskattar af völdum barnabóta hafa verið lækkaðir og skilvirkni barnabóta aukin. Þá hafa grunnfjárhæðir barnabóta jafnframt verið hækkaðar og skerðingar lækkaðar og barnabótakerfið einfaldað töluvert. Í frumvarpinu eru lagðar til afturvirkar ívilnandi breytingar á þeim ákvæðum sem tóku gildi í ársbyrjun 2024 og koma þær til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda í lok maí næstkomandi. Árleg framlög til stuðnings við barnafjölskyldur í gegnum barnabótakerfið verða aukin um 3 milljarða kr. á árinu 2024, til viðbótar við fyrri áform, og um 2 milljarða kr. til viðbótar á árinu 2025. Munu þau þá nema um 19 milljörðum kr. á árinu 2024 og um 21 milljarði kr. á árinu 2025.

Grunnfjárhæðir og tekju- og skerðingarmörk hækka enn frekar samhliða lækkun á skerðingarhlutfalli bótanna til að auka stuðning og fjölga þeim fjölskyldum sem fá barnabætur. Með breytingunum munu tíu þúsund foreldrar til viðbótar fá barnabætur við álagningu opinberra gjalda í lok maí 2024 en fengið hefðu að óbreyttum lögum. Á árinu 2025 er gert ráð fyrir því að grunnfjárhæðir og skerðingarmörk barnabóta verði hækkuð til samræmis við þróun verðlags og launa og verða heildarútgjöld til barnabóta þá orðin 21 milljarður kr. Breytingar á barnabótakerfinu vegna ársins 2025 verða lagðar fram og kynntar á Alþingi á komandi haustþingi.

Í frumvarpinu er jafnframt lagður til sérstakur vaxtastuðningur til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila með íbúðalán. Um tímabundna einskiptisaðgerð til eins árs er að ræða sem áætlað er að feli í sér ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings til ríflega 50 þúsund einstaklinga við álagningu opinberra gjalda á þessu ári. Vaxtastuðningurinn mun einkum ná til heimila í lág- og millitekjuhópum og koma til móts við þunga vaxtabyrði þeirra. Stuðningurinn mun koma til viðbótar almennum vaxtabótum og nema 23% af vaxtagjöldum ársins 2023 að teknu tilliti til tekna, eigna og fjölskyldugerðar.

Hámarksfjárhæð stuðningsins mun nema 150.000 kr. fyrir einstakling, 200.000 kr. fyrir einstætt foreldri og 250.000 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun í lok tekjuárs, að teknu tilliti til skerðinga vegna tekna og eigna. Þá er gert ráð fyrir því að sérstakur vaxtastuðningur verði greiddur beint inn á höfuðstól lána nema lántakandi óski þess sérstaklega að nýta hann til að lækka afborganir tiltekins láns út árið 2024 þar til fjárhæðinni er allri ráðstafað. Áætlað er að umfang sérstaks vaxtastuðnings nemi 5–7 milljörðum kr. Stuðningurinn mun ekki teljast til skattskyldra tekna, honum verður ekki skuldajafnað og ef hann er lægri en 5.000 kr. á mann fellur hann niður. Framkvæmdin mun verða með þeim hætti að ríkisskattstjóri mun ákvarða stuðninginn við álagningu opinberra gjalda á þessu ári og birta með niðurstöðu álagningar.

Eftir það er þeim sem ákvörðun tekur til heimilt að fara inn í þjónustusíðu sína á skattur.is og velja hvernig skuli ráðstafa stuðningnum. Viðkomandi verður að taka ákvörðun í júnímánuði og er hún bindandi fyrir hann. Ef þetta er ekki gert verður greiðslunni ráðstafað inn á það íbúðalán sem er hæst að eftirstöðvum samkvæmt skattframtali. Stuðningurinn kemur því ekki til útborgunar. Ríkisskattstjóri mun síðan senda Fjársýslunni í júlímánuði upplýsingar um ákvörðun sérstaks vaxtastuðnings og inn á hvaða lán eða afborganir skuli greiða á tímabilinu. Fjársýslan greiðir í framhaldinu sérstakan vaxtastuðning og miðlar upplýsingum til lánveitenda sem ráðstafa greiðslunum beint inn á lán, og ef við á til greiðslu afborgana í samræmi við ákvæðið.

Að lokum vil ég leggja áherslu á nauðsyn þess að frumvarpið fari hratt í gegnum þingið og verði að lögum helst í þessum mánuði ef það er mögulegt og hvet þingið þess vegna til þess. Það er gott að geta mælt fyrir því hér í kvöld. Það er vegna þess að gert er ráð fyrir að lögin komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda í lok maí næstkomandi.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.