154. löggjafarþing — 97. fundur,  17. apr. 2024.

opinber innkaup.

919. mál
[23:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 120/2016 um opinber innkaup. Helstu markmið frumvarpsins eru að gera tiltekin ákvæði í núgildandi lögum skýrari og markvissari í framkvæmd og þannig stuðla enn betur að hagkvæmum innkaupum hins opinbera. Lög um opinber innkaup ná yfir flest þau útgjöld ríkisaðila sem ekki teljast laun eða leiga, allt það sem ríkið útvistar, framkvæmir og kaupir af markaðsaðilum, hvort sem um er að ræða vörur, þjónustu eða verklegar framkvæmdir.

Það hefur verið og verður áfram mjög mikilvægt að regluverk opinberra innkaupa sé skýrt, virki vel og tryggi jafnræði fyrirtækja, stuðli að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efli nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera. Með þeim lagabreytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er m.a. verið að koma í veg fyrir að ósamræmi myndist milli innlendra reglna og EES-réttar við túlkun þeirra. Breytingarnar munu draga úr séríslensku regluverki í opinberum innkaupum hvað varðar viðmiðunarfjárhæðir útboðsskyldu á vörum og þjónustu. Við breytingar á lögum um opinber innkaup 2019 komu fram ný ákvæði um keðjuábyrgð aðalverktaka gagnvart starfsmönnum undirverktaka í samræmi við stefnu stjórnvalda um innleiðingu slíks ákvæðis í ólíkum atvinnugreinum.

Í þessu frumvarpi er komið til móts við ábendingar sem borist hafa um að skýrar heimildir þurfi til að aðalverktaki geti kallað eftir viðeigandi gögnum til að tryggja framkvæmd ákvæðisins. Meginmarkmið ákvæðisins er sem áður að sporna við mögulegri misnotkun á vinnuafli hér á landi ásamt því að auka vitund kaupenda um slíkt. Þá eru fyrirhugaðar breytingar á starfsemi innkaupastofnunar ríkisins með það fyrir augum að mynda öfluga þekkingarstofnun sem hefur aukna burði til að ná fram árangri í opinberum innkaupum með gagnadrifnum greiningum og samþættingu innkaupaverkefna við aðra fjármálaþjónustu sem nú þegar er veitt miðlægt. Því er lagt til að verkefni Ríkiskaupa, sem er lítil stofnun með um 20 starfsmenn sem skortir slagkraft, verði færð til Fjársýslu ríkisins.

Markmiðið er enn fremur að stuðla að bættri framkvæmd útboðsþjónustu, áætlunargerðar, framkvæmdar og skráningu samninga og birtingu opinna reikninga. Fyrirséð er að dregið verði úr heildarfjölda starfsmanna sem áður sinntu verkefnunum í tveimur aðskildum stofnunum og þar með að stuðla að aukinni ráðdeild í ríkisbúskapnum með betri meðferð opinberra fjármuna. Einnig er verið að draga ríkið úr framkvæmd á ákveðinni tegund innkaupaþjónustu sem þegar er veitt á einkamarkaði.

Eru þessar breytingar, sem stefnt er að, í eðlilegu framhaldi af þeim áherslubreytingum sem þegar hafa verið greindar og bent á varðandi einfaldara stofnanakerfi með burðugri stofnunum sem er í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um opinber innkaup. Með þessu eru þannig stigin veigamikil skref í þá átt að styrkja hlutverk miðlægrar innkaupaeiningar með heildarstæðari nálgun til að ná fram bættum árangri í starfsemi hennar, á sambærilegan hátt og gert hefur verið með álíka stofnanir á hinum Norðurlöndunum.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. fjárlaganefndar og til 2. umræðu að aflokinni þessari umræðu.