154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegur forseti. Á dögunum héldum við Pírata húsnæðisþing. Þingið hafði yfirskriftina: Hvar eiga krakkarnir að búa núna? Við fengum til okkar góða fyrirlesara víðsvegar að; frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtökum iðnaðarins og Leigjendasamtökunum. Þetta gerðum við gagngert til að leiða saman ólík sjónarmið og fá tillögur þessara aðila um hvað við getum gert til skemmri tíma. Það er ljóst að til skemmri tíma verður vandinn ekki eingöngu leystur með því að byggja bara meira, við getum einfaldlega ekki byggt nógu hratt. Það þýðir ekki að við ættum að hætta að byggja. Við verðum að halda því áfram. En við verðum að finna aðrar og fleiri leiðir til að leysa vandann til skemmri tíma. Við vitum að húsnæði er of dýrt. Það sést á því að síðustu ár og áratugi hefur húsnæði hækkað margfalt á við hvort tveggja verðlag og laun. Við getum ekki leyft okkur að slaka heldur á kröfum til húsnæðisins. Íslenska veðrið, sem við bæði elskum og elskum að hata, býður einfaldlega ekki upp á það.

Um það verður varla deilt að staða leigjenda á húsnæðismarkaði er slæm sem hefur margs konar skaðleg áhrif á leigjendur. Það er samt ekki öll nótt úti enn og lausnirnar eru til. Sumar er að finna í hvítbók um húsnæðismál, eins og hærri fasteignagjöld á íbúðir sem ekki eru til búsetu, útgreiðsluhlutfall lána á framkvæmdatíma, beina húsnæðisstuðningi að tekjulágum og fyrstu kaupendum frekar en almennum kaupendum, skýra regluverk um gististarfsemi, fjölga byggingarhæfum lóðum, tímabinda uppbyggingarheimildir, styrkja tæknilega grunninnviði. Aðrar tillögur snúa að því að bæta umhverfi byggingarframkvæmda, stytta tímalínur, auka endurgreiðslu virðisauka, takmarka hækkanir leigu og fleira. Lausnirnar eru til. Sumar er meira að segja að finna í málaskrá Alþingis um heimildir til að leggja aukafasteignagjöld og íbúð þar sem enginn býr og mætti nýta ef til greina kæmi að samþykkja mál frá stjórnarandstöðu.

Forseti. Við skuldum okkur sjálfum og komandi kynslóðum tækifæri til að búa sér heimili á Íslandi.