154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Katrín Sif Árnadóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða um fátækt. Ég tel að það fari oft fram hjá ráðamönnum þjóðarinnar hversu margir á Íslandi glíma við raunverulega fátækt. Í gær hlustaði ég á ráðherra ríkisstjórnarinnar mæra eigin verk og tala um hversu gott lífið á Íslandi væri vegna þess að þeir hefðu gert svo mikið. Fátækt fólk á Íslandi upplifir einhvern allt annan veruleika en ráðherrarnir. Hér hækkar allt í verði í hverjum einasta mánuði nema launin og það verður sífellt erfiðara að fá aðgang að þeirri grunnþjónustu sem ríkið á að veita þegnum sínum; heilbrigðisþjónustu, öldrunarþjónustu, félagsþjónustu o.s.frv. Raunveruleiki öryrkja er að greiða margfalt meira fyrir húsnæði en þeir gerðu áður en þeir fá það sama greitt frá Tryggingastofnun. Allar tilraunir þeirra til að bjarga sér úr fátækt, svo sem með vinnu, leiða til aukinna skerðinga og skila því litlu sem engu. Ríkisstjórnin þarf að hysja upp um sig buxurnar og kynna sér raunverulegar aðstæður fólksins í landinu og grípa til aðgerða til að mæta þeim vanda. Hættið að setja vandamálin í nefndir og stofna starfshópa. Fólk þarf fæði, klæði og húsnæði.