154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. RÚV segir frá því í dag að breytingar á lögum um þungunarrof á Íslandi árið 2019 hafi ekki fjölgað þungunarrofsaðgerðum eftir 16. viku. Þetta komi fram í talnagrunni embættis landlæknis. Eftir lagabreytinguna geta konur óskað eftir þungunarrofi fram að lokum 22. viku þungunar í stað 16 viku áður, óháð því hvaða ástæður liggja að baki. Þrátt fyrir dómsdagsspár ýmissa sem voru á móti þessum breytingum hefur þungunarrofum frá viku 16–22 ekki fjölgað og er það í samræmi við reynslu erlendis frá en þær tölfræðilegu staðreyndir dugðu ekki til að sannfæra hamfaraspámennina þegar málið var rætt hér á þingi.

Við afgreiðslu málsins hér í þingsal sögðu 40 þingmenn já, 18 sögðu nei og þrír greiddu ekki atkvæði. Og til upprifjunar: Allir þingmenn Vinstri grænna og Framsóknarflokks sögðu já við þessu stjórnarfrumvarpi, líkt og allir þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata. Meiri hluti Sjálfstæðisflokksins var á móti, þar á meðal núverandi hæstv. forsætisráðherra, ásamt öllum þingmönnum Flokks fólksins og Miðflokksins, að undanskilinni Önnu Kolbrúnu Árnadóttur heitinni sem sat hjá. Með leyfi forseta vitna ég hér í Alþýðusamband Íslands en þar er málið kjarnað vel:

„[Þetta eru] tímabærar og nauðsynlegar breytingar á lögum með það fyrir augum að tryggja og undirstrika réttinn til sjálfsforræðis kvenna yfir líkama sínum …“

Frú forseti. Þungunarrofum eftir 16. viku hefur ekki fjölgað þó að konur hafi nú þetta forræði yfir eigin líkama. Frelsið er nefnilega ekkert hættulegt, ekki einu sinni frelsi kvenna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)