154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Við skulum tala meira um aðstæður kvenna hér í heimi. Ég ætla að beina sjónum að Gaza og Súdan. UN Women á Íslandi hefur á liðinni viku benti á aðstæður kvenna og þar af leiðandi á aðstæður barna á þessum tveimur stríðshrjáðu svæðum. Við höfum margsinnis rætt um stríðið á Gaza á síðustu mánuðum. Nú hefur það staðið í meira en hálft ár og tölurnar tala sínu máli. Þar hefur Ísraelsher sett met í barna- og kvennamorðum, 34.000 eru látin í heild, 77.000 slösuð og við vitum ekki hve margir eru grafnir undir rústunum. Gleymda stríðið er stríðið í Súdan sem hófst fyrir ári. Þar er það eins og í öðrum stríðum, stríðið er háð á líkömum kvenna og barna. Það eru konur og börn sem eru á flótta, það eru konur og börn sem eru á barmi hungursneyðar líkt og annars staðar. Það sem maður tekur líka eftir, og er bent á hjá UN Women, er að konurnar sitja ekki við samningaborðið. Konurnar eru ekki í friðarumleitununum. Við borðin situr feðraveldið holdi klætt, hvort sem það er í Miðausturlöndum eða í Afríku. Þessu verður að breyta.

Frú forseti. Ég ætla að halda því fram að Ísland, íslensk stjórnvöld, íslenskir stjórnmálamenn, geti beitt sér í þessu máli. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur beðið ríkisstjórnir Norðurlandanna um að beita sér fyrir friðarumleitunum á Gaza. Okkur ber að svara því kalli og okkur ber að stuðla að friði og vernda líf kvenna og barna á stríðshrjáðum svæðum um allan heim. Við eigum að hafa forystu um friðarumleitanir þótt við séum lítið ríki og við getum beitt okkur að fullu.