154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:53]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða aðeins um vorfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var síðastliðinn föstudag. Eins og gefur að skilja þá snerist þessi fundur aðallega um náttúruhamfarirnar á Suðurnesjum og ekki síst um stöðuna í Grindavík og álagið sem skapast hefur í öðrum sveitarfélögum vegna þeirrar stöðu. Fulltrúar sveitarfélaganna, annarra sveitarfélaga en einnig Grindavíkur, komu þar og héldu tölu um stöðuna. Þessi staða er í raun og veru grafalvarleg. Bæjarráð Voga er nú búið að álykta og hvetja stjórnvöld til að bæta úr og koma til móts við sveitarfélögin sem eru að taka á sig þjónustu sem veitt hefur verið í Grindavík á eigin kostnað. Það hefur veruleg áhrif á möguleika sveitarfélaganna til að þjónusta þá sem eru með lögheimili í sveitarfélögunum sjálfum. Það er eðlileg og rétt réttmæt krafa að krefjast þess að ríkið komi til móts við þessi sveitarfélög sem mörg hver hafa bara veika tekjustofna fyrir. En það gerist ekki neitt. Við erum að heyra hér hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálm Árnason, ræða um upplýsingóreiðu eða upplýsingaskort. Ég vil nú frekar segja: Það skortir aðgerðir. Það skortir aðgerðir núna. Ég veit um unga móður sem er búin að flytja sex sinnum frá því að náttúruhamfarirnar hófust. Hvernig ætlum við að koma til móts við slíkan einstakling, slíka fjölskyldu? Hún flyst á milli byggðarlaga, hún er með barnið sitt á leikskóla í öðru sveitarfélagi. Hvað ætlum við að gera? Það krefst aðgerða, ekki bara upplýsinga um ekki neitt.