154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla einmitt að ræða um störf þingsins undir þessum lið. Störf þingsins þessa vikuna hafa verið áhugaverð. Hér er alveg ljóst að verið er að setja sand í tannhjólin og sjá til þess að mikilvæg málefni ríkisstjórnarinnar komist ekki inn í nefnd, fái síður umsagnir í tíma og fái síður afgreiðslu. Nú er það þannig að við höfum haldið tvo langa þingfundi síðustu daga, fram eftir nóttu, og ekki kvarta ég yfir því. Það er bara gaman á þingfundum, sérstaklega ef tekist er á og einhver raunveruleg samtöl og samræður eiga sér stað. Ég ætla ekki að gagnrýna það að fólk fari í ræðu í 1. umræðu í málum. Það er mjög eðlilegt. Við eigum að gera það. En það er engin þörf á því að fólk fylli heilar 15 mínútur, margir frá hverjum þingflokki, og fari svo í andsvör við aðra kollega sína í stjórnarandstöðu. Það er einfaldlega málþóf.

Í gær ræddum við hér vantraust á ríkisstjórnina. Það var öllum ljóst að sú vantrauststillaga yrði ekki samþykkt og hefðin hefur frekar verið sú að slík umræða tekur frekar snart af, hún er ákveðin og það er farið yfir kosti og galla ríkisstjórnarinnar. Í gær voru settar hér á langar ræður frá flestum þingmönnum stjórnarandstöðunnar um allt og ekkert og niðurstaðan varð að sjálfsögðu að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar stendur sterkari nú en fyrr. Kannski er þá full ástæða til að segja bara við hv. þm. Ingu Sæland: Takk, Inga, því stjórnarmeirihlutinn er örugglega sterkari og þéttari saman núna heldur en áður. (IngS: Mikið er ég glöð.) Já, ég veit að hv. þm. Inga Sæland (Gripið fram í.) gleðst (Forseti hringir.) og ég bara bíð spennt eftir því sem koma skal. Ég vona samt að við fáum tækifæri til að taka öll þau mál t.d. sem voru á dagskrá í gær. Hér voru mál er tengdust kjarasamningum, um trúfélög, aðgerðir gegn peningaþvætti, fullnustu refsingar og svo mætti lengi telja. (Forseti hringir.) Allt mikilvæg mál sem eiga fullt erindi að fá að komast í málefnalega umræðu hér í þinginu, komast í nefnd til umfjöllunar (Forseti hringir.) svo við vonandi getum afgreitt sem flest af þeim sem lög frá Alþingi í vor. (Gripið fram í.)