154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég er á sömu skoðun og hv. þingmaður hér á undan mér og mig langar svolítið að ræða um störf þingsins og hvernig þeim hefur verið hagað þessa vikuna. Undanfarna daga hefur verið mikið um stóryrði hér í pontu, misvel farið með sannleikann. Stundum er hreinlega eins og við séum ekki öll með sömu skjölin í höndunum. Stundum getur verið að það sé mismunandi túlkun á hlutunum, mismunandi bakgrunnur, hvað það getur verið. En ég vil brýna þingmenn að fara hins vegar satt og rétt með staðreyndir hér í þingsal. Ég sem þingmaður, sem almennur borgari hér í þessu samfélagi geri þá kröfu til þingmanna að það sé farið satt og rétt með þegar er komið hingað upp í pontu og að við séum ekki að afbaka sannleika. Hér hefur verið talað um það að öryrkjar séu skildir eftir í fjármálaáætlun. Það er ekki rétt, það er vinna í gangi til þess að grípa betur utan um öryrkja. Við þurfum að leyfa þeirri vinnu að klárast. Við erum öll kjörin til að vinna að framfaramálum í þágu þjóðarinnar, stjórn og stjórnarandstaða. Við þurfum að vinna í sameiningu að þeim stóru málum sem fram undan eru. Við þurfum að gera það í sameiningu og við í Framsókn ætlum okkur að standa vaktina, standa keik og fara satt og rétt með þegar við komum hingað upp í pontu og við ætlum að vinna í sameiningu að þeim stóru málum sem fram undan eru og ekki eyða tímanum í óþarfa, eins og t.d. í gær, það fór hellings tími í ekki neitt. Og ég vil brýna okkur. Verkefnin eru stór, þau eru mikilvæg og þau eru öll í þágu þjóðarinnar.