154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Mig langar að biðja hæstv. forseta um að athuga hvort það plagg sem verður rætt á eftir og næstu tvo daga í framhaldinu, sem sagt í dag, föstudag og mánudag, sé örugglega rétta plaggið, hvort það sé búið að prófarkalesa þetta með fullnægjandi hætti vegna þess að ég veitti því athygli fyrir tilviljun þegar ég fór að leita að áformum um skattalækkanir í kjölfar næstu kosninga, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur flaggað ítrekað að verði boðaðar, að það finnast engin merki um slík áform í þessari fjármálaáætlun. Nú liggur fyrir að fjármálaáætlunin var í öllum meginatriðum, ef ekki að öllu leyti, unnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins, þó að formaður Framsóknarflokksins mæli fyrir henni hér í þinginu, og því vekur það athygli að á þessum 200 blaðsíðum sé hvergi komið inn á áform um skattalækkanir í kjölfar næstu kosninga. Annaðhvort hlýtur Sjálfstæðisflokkurinn að áætla að vera utan ríkisstjórnar og það sé ekki raunhæft plan að ná þessum markmiðum fram eða þá að það er einhver mistök, þessi kafli hafi bara gleymst í fjármálaáætluninni. Mig langar til að biðja hæstv. forseta um að hlutast til um að gengið verði úr skugga um þetta, hvort það gæti hafa verið annað plagg sem átti að koma hérna inn í þingið þar sem var gert ráð fyrir skattalækkunum á næsta kjörtímabili eins og boðaðar hafa verið af hendi formanns Sjálfstæðisflokksins.