154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Misskilnings gætir í umræðunni um frestun gildistöku nýs örorkulífeyriskerfis en því er haldið fram að hún sé til komin vegna sparnaðarsjónarmiða. Í fjármálaáætlun í fyrra var gert ráð fyrir að nýtt kerfi örorkulífeyris myndi taka gildi 1. janúar 2025. Vinnan við gerð frumvarpsins hefur verið umfangsmikil og kallað á mikið samráð við stofnanir og hagaðila sem gerði frumvarpið enn betra en ella. Það er ekki æskilegt að vinna svona stórtækar kerfisbreytingar of hratt því að það þarf tíma til að vinna og innleiða þessar mikilvægu breytingar svo að vel sé. Þess vegna getur frumvarpið ekki tekið gildi 1. janúar 2025 og er gildistakan fyrirhuguð þann 1. september 2025, eins og fram kemur í frumvarpinu um endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra mælti fyrir á Alþingi fyrir páska. Frestunin er gerð til að gefa stofnunum tíma til að vinna innleiðinguna vel. Það getur verið að það henti stjórnarandstöðunni að draga upp þessa frestun með þeim formerkjum að verið sé að ráðast á örorkulífeyrisþega en staðreyndin er sú að þessi frestun er óhjákvæmileg vegna þess að tíma þarf til innleiðingar breytinganna.

Fram undan eru stærstu breytingar á örorkulífeyriskerfinu frá upphafi. En af hverju breytingar? Kerfið í dag er flókið og ógagnsætt og litlir hvatar til atvinnuþátttöku. Nýja örorkulífeyriskerfið verður einfaldað, dregið úr tekjutengingum og það gert skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Við hljótum að sameinast um það hér á Alþingi að vilja taka þátt í því að bæta örorkulífeyriskerfið sem hefur verið stefnt að lengi og pólitíkin aldrei komist eins langt með að gera raunverulegar umbætur og nú og nauðsynlegt er að ljúka þeim. Staðreyndum þarf hins vegar að halda til haga.