154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029, sem dreift hefur verið á þskj. 1501. Almennt er miðað við að fjármálaáætlun sé lögð fram fyrir Alþingi fyrir 1. apríl ár hvert en nokkrar gildar ástæður liggja að baki því að nauðsynlegt hefur reynst að víkja frá því í ár. Fyrst má nefna tafir vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga og aðgerða stjórnvalda til að aðstoða íbúa Grindavíkur og fyrirtæki sem hafa verið með starfsemi þar. Þá tafðist vinna við fjármálaáætlun vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem undirritaðir voru í byrjun mars en aðkoma ríkissjóðs að þeim er metin á yfir 80 milljarða kr. á næstu fjórum árum og hafði það töluverð áhrif á vinnslu fjármálaáætlunar. Að lokum þurfti að bíða með lokafrágang áætlunarinnar til framlagningar í tengslum við ráðherraskipti í fjármálaráðuneytinu eftir að Katrín Jakobsdóttir baðst lausnar sem forsætisráðherra.

Meðan á heimsfaraldrinum stóð var það helsta markmið hagstjórnar að draga úr varanlegu tapi lífsgæðavaxtar. Nú er orðið ljóst að mikill árangur náðist og sú efnahagsstefna sem ríkisstjórnarinnar hefur markað á síðastliðnum árum hefur skilað okkur góðum árangri. Hagkerfið hefur náð sér fyllilega á strik í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru og landsframleiðsla á mann hefur nú þegar náð því stigi sem spár frá því fyrir heimsfaraldurinn, án hans, gerðu ráð fyrir. Er það raunin jafnvel þótt efnahagsleg áhrif faraldursins hafi verið mikil hér á landi vegna mikilvægi ferðaþjónustu í verðmætasköpun. Markmið stjórnvalda um að tryggja viðnámsþrótt efnahagslífsins eftir heimsfaraldurinn hafa því gengið eftir.

Verðbólga hefur hins vegar verið langt yfir verðbólgumarkmiði, fyrst vegna skella á framboðshlið heimshagkerfisins en svo í vaxandi mæli vegna mikillar heildareftirspurnar. Hins vegar fer árangur aðhalds í hagstjórn, bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, nú vaxandi og birtist í hægari vexti umsvifa og minni launahækkunum. Þannig er gert ráð fyrir í nýjustu þjóðhagsspá Hagstofunnar að áfangasigrar náist í lækkun verðbólgu á yfirstandandi ári og að á þeim grunni náist fljótlega jafnvægi í þjóðarbúinu með verðstöðugleika og 2–3% hagvexti á tímabili áætlunarinnar.

Mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar er að skapa aðstæður til að verðbólga lækki enn frekar. Þá skapast forsendur fyrir lækkun vaxta í kjölfarið og í þessu liggja þrjár megináherslur þessarar fjármálaáætlunar.

Í fyrsta lagi að verja sterka stöðu með því að halda útgjaldavexti í skefjum. Þannig munu útgjöld ríkissjóðs og hins opinbera í heild vaxa hóflega í ár og á tímabili fjármálaáætlunar. Með hægfara útgjaldavexti er stefnt að því að hlutfall heildarútgjalda hins opinbera af vergri landsframleiðslu sem í ár mun nema um 44%, verði orðið tæplega 41% undir lok tímabilsins. Með þeim hætti auðvelda opinber fjármál það verkefni Seðlabankans að stuðla að stöðugu verðlagi.

Í öðru lagi að forgangsraða verkefnum og hagræða í rekstri þannig að nýjum útgjöldum er mætt með aðhaldi og umbótum í öðrum rekstri án þess að það komi niður á þjónustu ríkisins. Þannig verður kraftur settur í að auka skilvirkni hins opinbera og endurmeta stofnanaskipulagið við rekstur opinberrar þjónustu. Miklir möguleikar liggja þar við að nýta fjármagn betur og gera stofnanir burðugri til að veita þjónustu sem þörf er á. Nú þegar hefur náðst mikill árangur í að auka framleiðni hins opinbera í gegnum stafræn verkefni og hafa sýslumannsembættin t.d. náð að auka hraða afgreiðslunnar markvert með aukinni stafvæðingu á sama tíma og hagrætt hefur verið í rekstrinum. Útgjöld ríkissjóðs og hins opinbera í heild munu því vaxa hóflega í ár og á tímabili fjármálaáætlunar.

Í þriðja lagi að lækka skuldir ríkissjóðs þannig að hann geti í framtíðinni varið samfélagið gegn áföllum af því tagi sem riðið hafa yfir á undanförnum árum en það er enginn vafi á því að sterk staða ríkissjóðs var ein forsenda þess að vel tókst til að stýra hagkerfinu út úr þeim erfiðleikum sem heimsfaraldurinn hafði í för með sér og því mikilvægt að fjárhagsstaða ríkissjóðs sé traust og skuldir hóflegar.

Aðgerðir ríkisins vegna kjarasamninga og styðja vel við markmið fjármálaáætlunar og eru í forgangi í þessari fjármálaáætlun enda skiptir það miklu máli fyrir stöðuleika og þróun efnahagsmála að samið hafi verið til langs tíma og friður ríki á vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru fjölþættar en hafa það allar að markmiði að styðja við lífskjör launafólks. Umfang aðgerðanna nemur 13–23 milljörðum kr. á hverju ári á tímabili fjármálaáætlunar og alls, eins og áður var sagt, 83 milljörðum kr. á tímabilinu.

Framtíðin er björt á Íslandi. Stoðum efnahagslífsins fer fjölgandi og útflutningur hratt vaxandi atvinnugreina, svo sem fiskeldis og tæknitengdrar þjónustu, nálgast nú sjávarútveg að umfangi. Samhliða örum vexti verðmætasköpunar og aukinni fjölbreytni atvinnulífsins hefur viðnámsþróttur hagkerfisins styrkst enda hefur vöxturinn ekki verið drifinn áfram af skuldsetningu. Þvert á móti hafa skuldir heimila og fyrirtækja lækkað að raunvirði og í hlutfalli við verðmætasköpun eru skuldir þeirra við söguleg lágmörk. Samhliða hafa eignir heimilanna aukist til muna. Viðskiptahalli, sem greiningaraðilar töldu þar til nýlega að væri kominn til að vera, hefur snúist í markverðan viðskiptaafgang. Þar spilar batnandi afkoma ríkissjóðs mikilvægt hlutverk.

Virðulegur forseti. Ég vík nú máli mínu að meginmáli fjármálaá¬ætlunar sem er stefnan í fjármálum ríkisins og hins opinbera í heild. Eitt af markmiðum fjármálaáætlunarinnar er að bæta áfram afkomu hins opinbera svo hún geti stuðlað með sjálfbærum hætti að lækkun skuldahlutfalla eigi síðar en árið 2026. Þá taka tölulegar fjármálareglur laga um opinber fjármál gildi á nýjan leik en þeim var vikið fyrst til hliðar í heimsfaraldrinum. Tilgangurinn þá var að veita stjórnvöldum nægjanlegt svigrúm til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum faraldursins. Hvað ríkissjóð og hið opinbera í heild varðar þá mun áfram verða bati á afkomu þess. Frumjöfnuður varð þegar jákvæður á síðasta ári, 2023, og gert er ráð fyrir að heildarjöfnuður verði orðinn jákvæður á síðasta ári tímabilsins. En eins og kunnugt er jukust útgjöld ríkissjóðs umtalsvert í kjölfar heimsfaraldursins og hefur sú aukning ekki enn gengið til baka að fullu þótt útgjaldaheimildir sem tengjast heimsfaraldrinum með beinum hætti hafi verið felldar niður. Útgjaldastigið á þessu ári er rúmlega 1% af vergri landsframleiðslu hærra en árin 2018–2019.

Bati í afkomu ríkissjóðs verður best tryggður með því að halda aftur af útgjaldavexti og er í forsendum áætlunarinnar að jafnaði gert ráð fyrir um 4% nafnaukningu heildarútgjalda á ári. Með þessu móti verður vöxtur útgjalda minni en vöxtur landsframleiðslunnar á tímabilinu og þannig unnið að markmiðum um sjálfbærni ríkisfjármála og stöðugleika í samræmi við grunngildi laga um opinber fjármál. Heildarútgjöld ríkissjóðs fara úr því að vera rúmlega 31% af vergri landsframleiðslu á þessu ári í rúmlega 29% undir lok tímabilsins.

Í síðustu fjármálaáætlun voru kynnt skattaáform til að sporna gegn þenslu og draga úr verðbólguþrýstingi. Ber þar helst að nefna lækkun á endurgreiðsluhlutfalli virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði og tímabundna 1% hækkun á prósentustigi tekjuskatts lögaðila á álagningarárinu 2025. Þessar breytingar voru lögfestar á síðasta ári og gætir áhrifa af þeim á efnahagsumhverfi og ríkisfjármál á tíma áætlunarinnar og er því ekki gert ráð fyrir frekari skattbreytingum í þá veru. Skattstefna þessarar fjármálaáætlunar beinir sjónum sínum í meginatriðum að skattalegu jafnræði einstaklinga og fyrirtækja og að styrkingu grunnstoða skattkerfisins til að takast á við samfélagslegar breytingar og voru flestar aðgerðirnar kynntar í gildandi fjármálaáætlun fyrir ári síðan.

Eitt helsta áherslumál í tekjuöflun er nýtt framtíðartekjuöflunarkerfi vegna umferðar og orkuskipta. Fyrir nokkrum árum var sett stefnumið um að tekjur af ökutækjum og eldsneyti yrðu 1,7% af vergri landsframleiðslu líkt og að meðaltali á árunum 2010–2017. Fyrsta skrefið í átt að slíku kerfi var stigið í ársbyrjun 2024 með gildistöku laga um nýtt kílómetragjald á notkun rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla. Fyrirhugað er að síðara skrefið verði stigið í upphafi árs 2025. Þar verður einnig tekið upp kílómetragjald á notkun allra annarra bíla. Samhliða er gert ráð fyrir endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, þ.m.t. að vörugjöld af eldsneyti, bensíngjald og olíugjald, lækki verulega eða falli niður en kolefnisgjald verður áfram lagt á jarðefnaeldsneyti til að fanga neikvæð ytri áhrif af notkun þess. Kílómetragjaldið byggir á fjölda ekinna kílómetra og mun nýtt tekjuöflunarkerfi því endurspegla betur raunverulega notkun á vegasamgöngum en núverandi eldsneytisskattar gera. Þetta nýja tekjuöflunarkerfi styður við tekjuöflun til framtíðar og er m.a. ætlað að mæta uppbyggingu vegakerfisins.

Annað umfangsmikið skattamál sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum og hefur áhrif á fjármálaáætlunina felst í aðgerðum OECD og G20-ríkjanna gegn rýrnun skattstofna og tilfærslu skattskylds hagnaðar af stafrænni þjónustu milli ríkja. Aðgerðirnar gegna mikilvægu hlutverki til að tryggja sanngirni og jafnræði milli landa. Um er að ræða tveggja stoða aðgerð. Stoð 1, skattlagning á stafræna hagkerfið, felur í sér heimild fyrir ríki til að leggja skatt á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja af stafrænum viðskiptum sem verður til í viðkomandi ríki. Þannig er komið í veg fyrir að fyrirtæki geti hagnast af sölu þjónustu í markaðsríkjum án þess að greiða þar skatta. Stoð 2, svokallaður alheimslágmarksskattur, felur í sér upptöku á 15% alþjóðlegum lágmarksskatti á fjölþjóðafyrirtæki, óháð því hvar þau starfa. Megintilgangur skattsins er að koma í veg fyrir að fjölþjóðafyrirtæki komist hjá skattlagningu með tilfærslu hagnaðar til lágskattaríkja og jafna þannig stöðu fyrirtækja almennt. Um er að ræða eina stærstu breytingu sem hefur orðið á skattlagningu á alþjóðlegum vettvangi. Ísland hefur samþykkt að innleiða alheimslágmarksskatt og mun ljúka innleiðingunni á síðari hluta þessa árs með áformaðri gildistöku á árinu 2025.

Enn fremur er áframhald á endurskoðun á reglum um skattlagningu launa og reiknuð laun. Vinnan snýr að úrbótum í skattframkvæmd og á lögum og reglum um úthlutun/úttektir úr félögum til að koma í veg fyrir óeðlilega hvata til stofnunar einkahlutafélaga.

Einnig má nefna að til skoðunar er að gera breytingar á gjaldtöku ferðamanna. Ferðaþjónustan hefur haft nær óheftan aðgang að náttúruauðlindum, sem er ein helsta söluvara greinarinnar, með tilheyrandi álagi á náttúru og innviði landsins. Til skoðunar er að setja á fót gjaldtöku sem stuðlar að sjálfbærni ferðamannastaða þannig að fjöldi þeirra verði í samræmi við þolmörk náttúruauðlinda, innviða og samfélagsins í heild. Samhliða þeirri vinnu er gert ráð fyrir endurskoðun á gistináttagjaldi.

Þá er í gangi endurskoðun á lögum um veiðigjald undir forystu matvælaráðuneytisins og er gert ráð fyrir að endurskoðunin skili auknum tekjum í ríkissjóð á tímabili fjármálaáætlunar.

Að lokum er gert ráð fyrir frekari hækkun fiskeldisgjalds þar sem gjaldhlutfall efsta þreps hækkar í 5% af meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi.

Tekjuáhrif af fyrirhuguðum skattbreytingum eru áætluð samanlagt 0,5% af vergri landsframleiðslu árið 2025 en hækka í 0,7% af vergri landsframleiðslu árið 2029. Hækkunina yfir tímabilið má fyrst og fremst rekja til innleiðingar breytinga á skattlagningu ökutækja og eldsneytis þar sem markmiðið er að tekjur verði 1,7% af vergri landsframleiðslu á ári og breytingin hin umfangsmesta á sviði skattamála í þessari fjármálaáætlun.

Þróun ríkisútgjalda síðastliðin ár ber þess glöggt merki að ríkisfjármálunum hafi verið beitt í baráttunni við heimsfaraldurinn. Stefna stjórnvalda hefur verið að vaxa út úr vandanum með því að auka verðmætasköpun í hagkerfinu sem skili ríkissjóði auknum tekjum. Samhliða hefur verið gengið út frá þeirri forsendu að halda aftur af útgjaldavexti og bæta afkomu ríkissjóðs milli ára. Bæði gildandi fjármálaáætlun og fjárlög tóku mið af þessu. Atburður síðustu missera á Reykjanesi og aðkoma ríkissjóðs að nýgerðum kjarasamningum hafa hins vegar leitt til verri horfa í útgjöldum ríkissjóðs.

Uppsöfnuð aukning heildaútgjalda tímabils áætlunarinnar nemur um 90 milljörðum kr. á föstu verðlagi eða 6% sem teljast verður hófleg aukning yfir fimm ára tíma. Þetta væri ekki mögulegt nema til kæmu sértækar ráðstafanir sem koma til viðbótar almennu aðhaldsviðmiði áætlunarinnar sem verður 1%. Starfsemi heilbrigðis- og öldrunarstofnana og skóla verður þó undanskilin. Með þessari útfærslu eru grunnþjónusta og tilfærslukerfi ríkisins varin og komið í veg fyrir að dregið sé úr þjónustu við viðkvæma hópa.

Eins og í fjármálaáætlunum undanfarinna ára er klárlega forgangsraðað í velferðarmál og mennta- og menningarmál en þau eru yfir 60% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Meðal helstu breytinga á útgjöldum ríkissjóðs má nefna aðkomu að kjarasamningum en eins og áður sagði þá er umfang þeirra aðgerða um 83 milljarðar kr. Þar vega þyngst framlög til Fæðingarorlofssjóðs, hækkun barnabóta og framlög vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða. Einnig verða veitt aukin stofnframlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins.(Forseti hringir.) — Er tíminn búinn, frú forseti?

(Forseti (OH): Hann er búinn.)

Þá hef ég farið of hægt með þessa ræðu og ætla að fá að ljúka þessu á því að segja að ég mun koma þeim atriðum sem eftir eru inn í umræðuna eftir atvikum. Ég vil að lokum segja að ég hef farið hér í stuttu máli yfir helstu markmið en áætlunin er ítarleg (Forseti hringir.) og engin leið til að gera grein fyrir öllu. Ég hvet alla til að kynna sér efni hennar vel og legg til að áætluninni verði vísað til hv. fjárlaganefndar að lokinni þessari umræðu.