154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:28]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra um viðhorf hans til svokallaðs ehf.-gats sem gerir fólki kleift að telja launatekjur fram sem fjármagnstekjur ef þau eru með ehf.-félög. Það hefur ítrekað verið lagt mat á að þetta leiði til þess að hið opinbera verði af tekjum upp á hátt í 10 milljarða kr. í nýjasta mati. Reyndar er fjallað um það í þessari fjármálaáætlun að vinna þessu tengd hafi verið í gangi í fjármálaráðuneytinu í talsverðan tíma. Hins vegar get ég ekki séð að gert sé ráð fyrir tekjum af þessu í fjárhag hins opinbera í áætluninni, a.m.k. er ekkert sagt um það og fyrrverandi fjármálaráðherra sýndi þessari skattaglufu mjög litla athygli. Nú hafa Framsóknarmenn reglulega vitnað til þess að gæta þurfi sanngirni í svona málum. Það má reyndar líka nefna bankaskatt, hvalrekaskatt og fleiri atriði, sem m.a. varaformaður flokksins hefur lagt áherslu á. Ég vil því spyrja um tvennt: Ætlar hæstv. ráðherra að klára ehf.-málið á næstu mánuðum og koma þar í veg fyrir áframhaldandi skattaundanskot? Er eitthvað því til fyrirstöðu að hann breyti áætlunum um að allt aðhald komi á útgjaldahliðina á næsta fjárlagaári og beiti sér frekar fyrir breytingum á bankaskatti í staðinn og innleiðingu reglna til að taka á ehf.-gatinu og fylgi þar með eftir orðum sinna eigin flokksmanna?