154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:32]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og hlakka til að sjá þetta frumvarp koma inn í þingið í haust. Ég velti fyrir mér hvort það væri ekki ástæða til að setja eitthvað af því inn í tekjur fyrir næsta ár þó að það skili sér mögulega bara til sveitarfélaga. En mig langaði til að nýta seinna andsvar mitt til þess að spyrja aðeins út í þær sérstöku aðhaldsaðgerðir sem vitnað er til í þessari tillögu til að vega á móti útgjöldum vegna kjarasamninga og þá sérstaklega þar sem fram kemur að það virðist eiga að líta á niðurlagningu vaxtabótakerfisins sem ákveðna aðhaldsaðgerð í þessari áætlun. Þetta er að eiga sér stað þrátt fyrir að á þessu ári eigi að nota nákvæmlega sama kerfi til að greiða vaxtabótaauka og það er í rauninni stór forsenda í núverandi kjarasamningum. Ég verð bara að segja eins og er, forseti, að ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að endurskoðun á vaxtabótakerfinu sem flokkuð er sem mótvægisaðgerð og þar með aðhald í þessari áætlun, feli í sér niðurfellingu á kerfinu þar sem það eru aðeins um 2 milljarðar kr. í þessu kerfi. Það er kannski ekki mikið sem er hægt að færa þar niður í nafni aðhalds.

Mín spurning til hæstv. fjármálaráðherra er því hvort hann telji að það sé kominn tími á að leggja niður þetta kerfi. Eru aðstæður á húsnæðismarkaði á tímabili þessarar áætlunar orðnar það góðar og aðgangur að félagslegu húsnæði og óhagnaðardrifnu húsnæði? Það er gott að hægt sé að leggja þetta kerfi að fullu niður eftir tvö ár, ef ég skil þetta rétt. Er það réttur skilningur, ég ítreka þá spurningu, að kerfi sem á að nota núna til að uppfylla m.a. forsendur kjarasamninga eigi síðan að leggja niður einu til tveimur árum síðar?