154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að geta aðeins farið yfir þetta. Það er rétt að við erum að beita einskiptisaðgerð, verulegum fjármunum, milli 5 og 7 milljörðum, til að koma til móts við heimili vegna hárra vaxta og verðbólgu, á sama tíma og við erum að sjá verðbólguna lækka og munum sjá hana lækka áfram. Við beitum þess vegna þessari einskiptisaðgerð inn á höfuðstól lána til að það hafi heldur ekki áhrif á þenslu í samfélaginu af þeim sökum. En það er líka rétt að við höfum í hyggju að endurskoða vaxtabótakerfið. Starfshópur sem á að leggja mat á fyrirkomulag húsnæðisstuðnings hér í samanburði við Norðurlöndin mun hefja störf og skila sinni vinnu. Það hefur lengi staðið til og þótt tilefni til, m.a. af mjög mörgum erlendum aðilum sem hafa skoðað þetta hér, hvort sem það er OECD eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eða Alþjóðabankinn, og bent á að vaxtabótakerfið sé mjög sérkennilegt fyrirbæri og hafi mjög sérstök áhrif. Það er líka rétt að stór hluti vaxtabóta hefur runnið til tekjuhærri helmings þjóðarinnar og eðli máls samkvæmt til þeirra sem eiga náttúrlega sitt eigið húsnæði. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum verið að byggja upp hið almenna íbúðakerfi og beitt hlutdeildarlánum til að koma til móts við þá sem hvorki geta eignast eða leigt húsnæði upp á eigin spýtur, án aðstoðar hins opinbera. Þar erum við komin með kerfi með 5.000–6.000 íbúðum, 2.600, ef ég man rétt, sem eru komnar í notkun og einhverjar heimildir, úthlutanir, fyrir rúmlega 3.000 þar til viðbótar. Þannig að við erum á fullri ferð í raun og veru að fara yfir í eitthvað sem líkist meira hinu norræna kerfi sem við ætlum síðan að skoða. Við höfum þá sýn og ég hef þá sýn að þeir fjármunir sem hafa verið að nýtast í vaxtabótakerfinu séu betur nýttir í hinu kerfinu sem er til stuðnings þeim sem þurfa á aðstoð að halda, með skýrari hætti heldur en vaxtabótakerfið hefur gert.