154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég hef nú sjaldan hlustað á önnur eins öfugmæli og hæstv. fjármálaráðherra hafði frammi í sinni framsögu. Þá ætla ég að byrja á því að vísa til hóflegrar lántöku. Við höfum tekið núna 130 milljarða að láni frá því í desember síðastliðnum, 130 milljarða. Við erum að greiða 117 milljarða í vexti af lántökum á ári eins og staðan er í dag. Hæstv. ráðherra kallar það hóflegar lántökur. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað skuldar íslenska ríkið mikið í erlendum lánum og bara lánum yfirleitt? Síðan talar hann um að skuldir heimilanna hafi aldrei verið betri og þær hafi nú eiginlega farið batnandi. Í janúar síðastliðnum kom fram að skuldir heimilanna á einu ári hefðu vaxið um 5,7% og einnig hefur greiðslubyrði heimilanna vaxið mjög mikið. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hver er raunveruleg staða heimilanna í landinu? Hver er raunveruleg staða heimilanna í landinu núna þegar þau eru að lenda í snjóflóðinu með vaxtaokrinu? Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að gera eitthvað í því?

Og síðast en ekki síst: Er þessi ríkisstjórn orðin algerlega veruleikafirrt? Eru það einu úrræðin sem þessi ríkisstjórn á, til þess að tala um hófleg útgjöld, að ráðast á öryrkja? Er ekki nóg að það sé verið að hreina og klára aðför að fötluðu fólki með því að spara 150 milljónir í reksturinn á Múlalundi? Það er hrein og klár aðför. Það er ekkert sem segir að öryrkjar eigi ekki að fá að njóta þess að fá hækkun eins og var verið að lofa hér 2019. Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru það einu úrræðin sem hægt er að koma með hér og bera á borð fyrir alþjóð, að það séu öryrkjar, það séu bognu bökin sem megi alltaf beygja meira? Þeir sem búa við langslökustu kjörin í samfélaginu? Er það endalaust á þeim sem á að níðast?