154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Heildarskuldir ríkissjóðs eru einhvers staðar á bilinu 1.400–1.500 milljarðar. Innlend lántaka nýtist okkur sem gjaldeyrisvaraforði þannig að lántökur okkar eru augljóslega hófsamar og mikilvægt að þær séu teknar með reglulegu millibili, m.a. til að viðhalda skuldabréfamarkaðnum hér innan lands. Íslenska ríkið er þar mikilvægur þáttur. Þær fara lækkandi á tímabili fjármálaáætlunarinnar og eru lágar í alþjóðlegum samanburði en við höfum sett okkur það markmið að þær þurfi að vera enn lægri. Fjármálareglurnar segja 30% og við erum að nálgast það á þessu tímabili þrátt fyrir að hafa nýtt sterka stöðu ríkissjóðs í heimsfaraldri með allt að 7–8% halla, sem við gerðum markvisst vegna þess að við gátum það. Árangurinn er augljós af því hvernig við sjáum hagkerfið koma út úr þessu. Við sjáum líka bæði sterka stöðu heimila og fyrirtækja og skuldastöðu í alþjóðlegum samanburði og það kemur vel fram í fjármálaáætluninni í töflum og gröfum þar í samanburði við Norðurlöndin. Ég veit að þetta er ekki það sem hv. þingmaður vill heyra vegna þess að hv. þingmaður vill halda einhverju öðru fram. Það er rétt að skuldirnar hafa vaxið um 5,7% að nafnverði en á sama tíma hafa eignirnar vaxið meira og kaupmáttur launa hefur vaxið umfram það, langt umfram það sem öll önnur lönd hafa séð þar sem kaupmáttur hefur farið minnkandi. Þess vegna skipta máli þær aðgerðir sem við fórum í tengslum við kjarasamninga til að takast á vanda þeirra hópa sem þurfa sannarlega að taka meiri byrðar á sig vegna hárrar verðbólgu og vaxta sem er í landinu og við þurfum að vinna öll að því að ná niður, (Forseti hringir.) þar á meðal með þessum einskiptisvaxtastuðningi til þeirra sem eiga húsnæði og verulegra hækkandi húsnæðisbóta til þeirra sem leigja húsnæði.