154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:41]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir svarið. Hófleg lántaka, 130 milljarðar frá áramótum, það er hóflegt, já. Skuldir heimilanna hafa vaxið um 5,7%, eignir heimilanna einnig vaxið, eðlilega þegar það er þvílíka brjálæðið á fasteignamarkaðnum og 50 millj. kr. eign fyrir nokkrum árum síðan selst á 100 millj. kr. í dag. En hvað á fólk að gera? Innleysa þennan hagnað sinn og flytja út á götu eða teiknaðar pappírsbyggingar á einhverjum teikniborði? Uppbygging á fasteignum hefur verið algerlega í öllu lágmarki þó að það séu mörg ár síðan að það var löngu orðið ljóst að það þyrfti að byggja meira,. Er það í rauninni réttlætanlegt? Og annað: Hvernig í veröldinni dettur nokkrum einstaklingi í hug að standa hér í einu dýrasta ríki í veröldinni og ætla endalaust að bera sig saman við löndin í kringum okkur? Eigum við þá ekki að bera okkur saman við lönd þar sem kaupmátturinn raunverulega fylgir launum? Hér gerir hann það ekki. Hér glímum við við 9,25% stýrivexti. Hér glímum við við okurvexti á öllum sviðum og það er algjörlega óréttlætanlegt að koma hér og ætla að láta í veðri vaka að hér drjúpi smjör af hverju strái. Það eru engar bölsýnisbænir sem ég er að tala um hér. Ég er að tala um raunveruleikann. Ég er að tala um staðreyndir og hvernig raunveruleikinn snýr að stærstum hluta íslensks samfélags í dag, hvort heldur sem lýtur að heimilunum, fyrirtækjunum, millistéttinni eða hverju öðru sem er. Þetta er í boði þessarar ríkisstjórnar sem telur það hóflega skuldasöfnun að taka 130 milljarða kr. í lán frá því í desember í fyrra og um leið bæta um enn betur. 117 milljarðar á ári sem við erum þegar farin að greiða í vexti. Þetta eru einu úrbæturnar sem þessi ríkisstjórn hefur til að koma hlutunum í lag, það er að taka meiri lán, enda væri gaman að vita: Hver er aftur staða ríkissjóðs í dag í þeim hallarekstri sem hann er rekinn?