154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. 130 milljarðar hljóma auðvitað sem há tala en það er innan við 10% af því sem heildarskuldir ríkisins eru. Lán eru gjarnan tekin til fimm, sex ára og endurfjármögnuð reglulega (Gripið fram í.) þannig að það er mjög eðlilegt að það þurfi að taka lán af þessari stærðargráðu á hverju ári til þess einfaldlega að borga niður lán og endurnýja lán og ná smátt og smátt tökum á því. Þar skiptir auðvitað mestu máli að vaxtakjör ríkissjóðs séu góð og þar þurfum við að gera betur. Ég vil meina að íslenskt hagkerfi sé það öflugt og sterkt að við ættum að njóta betri kjara erlendis og það er eitthvað sem við verðum, held ég, að fara að horfa meira í. Við höfum verið að reyna að vinna að því. Við fengum gríðarlega góð lán á góðum kjörum fyrir nokkrum árum en eðli málsins samkvæmt, þegar vextir hafa hækkað í alþjóðlegum samanburði, þá hefur sú staða versnað.

Hv. þingmaður talar hér mikið um að hér sé allt í kaldakoli og við eigum ekki að bera okkur saman við nágrannaríkin. Staðreyndin er náttúrlega sú að Noregur og Sviss og hin Norðurlöndin eru þau lönd sem eru líkust okkur í lífskjörum og uppbyggingu samfélags og það er auðvitað merkilegt, af því að ég nefndi Sviss og Noreg, að það eru akkúrat ríki sem eru utan Evrópusambandsins, svona til að gleðja einhvern hérna í salnum. Þessi þrjú ríki raðast oft í efstu sætin í öllum samanburði í alþjóðlegum samanburði eftir ólíkum mælikvörðum. (IngS: Vextirnir.) Þannig að staðan er býsna góð. Og af því að hv. þingmaður klifar á því að vextirnir séu háir, þá eru þeir það en við fylgjumst vel með vanskilum til að mynda heimila á lánum sem er góður mælikvarði á fjölda þeirra sem eru í mestum fjárhagserfiðleikum. Það er að sjálfsögðu til fólk sem er það en hlutfall vanskila hefur ekki aukist að neinu ráði þrátt fyrir vaxtahækkanir og er lægra nú en árið 2021.