154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um að mikilvægasta verkefnið okkar er að setja fram stefnu og fjármálaáætlun sem, og ég hef verið að tala fyrir því, styður við það að verðbólga lækki og að vaxtastigið lækki til að koma á meira jafnvægi. Í þessari fjármálaáætlun er verið að leggja áherslu á að það sé hægt að gera það með því að vera með hófsaman útgjaldavöxt og leyfa svolítið þessu hagkerfi okkar sem er svo öflugt að taka þátt í því að auka tekjurnar á sama tíma þannig að hlutföllin verði rétt og við gerum þetta ekki í neinum dýfum eða sveiflum heldur jafnt og þétt. Ég deili alveg áhyggjum hv. þingmanns af þessum hópi og þau dæmi sem hann nefndi eru sannarlega til. Á sama tíma, þó að eignin hækki í verði, þurfa menn að standa undir greiðslubyrðinni, geta auðvitað farið í mismunandi önnur lánaform og átt samskipti við sínar fjármálastofnanir og það er alveg augljóst að það hefur gerst vegna þess að, eins og ég nefndi hérna áðan í andsvari, við erum að fylgjast mjög vel með þessu og Seðlabankinn einnig og það kemur í ljós að vanskil heimilanna hafa ekki vaxið að neinu marki og eru í dag lægri sem hlutfall heldur en þau voru árið 2021. Það breytir því ekki að það eru auðvitað til einhver einstök dæmi sem er hægt að setja fram. Það er m.a. þess vegna sem við komum fram með þann kjarapakka sem við sannarlega gerðum, annars vegar til þeirra sem eiga sitt eigið húsnæði með þessum einskiptisstuðningi við, ef ég man rétt, um 50.000 einstaklinga sem munu njóta þessarar greiðslu, þetta eru á bilinu 5–7 milljarðar í heild sinni, sem og stuðningi við þá sem eru á leigumarkaði með verulegu hækkuðum húsnæðisbótum, stækkun á umfangi fyrir barnmargar fjölskyldur og auðvitað á eignamörkum líka til þess að það nýtist þá heldur fleirum.