154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Jú, jú, það er alveg hægt að vaxa út úr vandanum og ýmislegt svoleiðis en það þarf þá að gera það á einhvern skipulagðan hátt. Það er ekki það sem þessi ríkisstjórn hefur gert. Tökum sem dæmi þetta blessaða aðhald sem er í þessari fjármálaáætlun. Það er gert ráð fyrir 2,3 milljörðum í almennt aðhald. Við sjáum ekkert voðalega nákvæmlega hvernig það leggst á einstakar stofnanir eða verkefni, en síðan eru 9 milljarðar annars staðar í óútfært aðhald. Það er rosalega mikilvægt að vita hvar þetta aðhald leggst því að það hefur mismunandi áhrif á hagkerfið eftir því hvernig þessum fjármunum er varið eða ekki varið, þeir eru teknir frá. Það er hægt að vaxa út úr vandanum með aðhaldi, aðhaldsaðgerðum. Við getum t.d. eytt meiri peningum í forvarnir, það sparar pening til lengri tíma. Það er aðhaldsaðgerð að efla forvarnir sem dæmi. Það eru engar svoleiðis áætlanir hjá ríkisstjórninni. Alveg eins og með kjarapakkann sem hæstv. fjármálaráðherra nefnir, það eru kröfur frá vinnumarkaðnum af því að ríkisstjórnin skilaði auðu, setti bara til hliðar fullt af peningum, 20 milljarða eða eitthvað því um líkt, og sagði: Við vitum ekki alveg hvernig við ætlum að nota þetta, við ætlum að ræða við verkalýðshreyfingarnar og vinnumarkaðinn um það hvernig við eigum að útdeila þessu. Útdeildu í rauninni ríkisstjórnarvaldinu til vinnumarkaðarins þegar allt kom til alls. Svo er búið að úthluta öllum þessum 20 milljörðum í þessum nýju kjarasamningum, frábært, en þá er opinberi markaðurinn eftir. Það er engin hugmynd um hvernig á að fjármagna þær launahækkanir. Vissulega mun hluti af þessum kjarapakka (Forseti hringir.) nýtast þar en þá eru samt launahækkanirnar sjálfar eftir. Ekkert aðhald þar. Þetta er vandinn sem við erum að glíma við. (Forseti hringir.) Það vantar stefnu stjórnvalda. Við erum með stefnu vinnumarkaðarins, hún virðist vera alveg ágæt, en stjórnvöld skila ekki stefnu.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á ræðutímann.)