154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Við hv. þingmaður áttum þetta samtal hér undir miðnætti í gærkvöldi og hann virðist ekki hafa sofið jafn vel og ég. En það er hægt að taka þetta aftur. Auðvitað er það rangt að aðilar vinnumarkaðarins hafi mótað stefnu ríkisstjórnarinnar. Það væri nú eitthvað sérstakt og furðulegt ef við í samskiptum við aðila vinnumarkaðarins, til að tryggja að hér yrðu gerðir fjögurra ára langtímakjarasamningar, ættum ekki samtal við aðilana um hvað myndi hjálpa til, hvað væri skynsamlegast, hlusta á þeirra sjónarmið og fara síðan til baka og koma með okkar hugmyndir — einmitt til þess að geta tekið á öllum vinnumarkaðnum, ekki bara þeim almenna heldur einnig opinbera markaðnum þar sem samningar standa enn yfir. Þær tillögur sem við lögðum fram til eru því til þess ætlaðar og þannig hugsaðar og stefnumörkunin af hálfu ríkisins að þær nýtist öllum vinnumarkaðnum, bæði þeim almenna og hinum opinbera. Svo þekkir hv. þingmaður það eftir langa setu sína í fjárlaganefnd að við erum einmitt með varasjóðinn heldur stærri en ella þegar kjarasamningar eru í vændum til að hafa svigrúm til þess að dekka þann kostnað með varasjóðnum. Það er auðvitað það sem er fyrir og það er m.a. líka þess vegna sem við treystum okkur til í þessari fjármálaáætlun að minnka varasjóðinn á næstu árum vegna þess að við erum komin með fjögurra ára samning á almenna markaðnum. Við sjáum þar af leiðandi fyrir okkur minni óvissu um breytingar sem þar eru og getum þá útfært hluta af varasjóðnum í bein verkefni án þess að vera með þá óvissu inni líka, það er nóg með aðra óvissu. óvissu.

Varðandi síðan 9 milljarðana þá gerðum við það í fjárlögum á síðasta ári og 9 milljarðar af 1.500 milljarða kr. fjárlögum er verkefni sem við hljótum að ráða við á hverjum tíma.