154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:55]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Það var áhugavert að heyra í hæstv. fjármálaráðherra fara með svolítið kunnuglegar tölur. Verðbólgan sem við erum að glíma við núna er að sjálfsögðu vegna ytri áhrifa og vextirnir þar af leiðandi líka. Ríkisstjórnin er að skapa einhverjar aðstæður til lækkunar verðbólgu og opinber fjármál að auðvelda Seðlabankanum að lækka vexti. Það liggur hins vegar fyrir að við síðustu vaxtaákvörðun var ekki hægt að lækka vexti vegna þess að það höfðu ekki komið skýr svör frá ríkisstjórninni um það hvernig ríkisfjármálin ættu að tækla þá kjarasamninga sem gerðir voru. Það er bara eitt lítið dæmi inn í þetta allt saman um það að ríkisvaldið sé ekki að ganga í takt með Seðlabankanum. Þetta er svolítið hérna frasakennt. Ég vil leyfa mér að segja að þetta hafi engan veginn verið í samræmi við upplifun almennings. Það liggur nefnilega fyrir núna að heimilin og fyrirtæki landsins eru að þola alveg ótrúlega ágjöf vegna þess hve verðbólgan er há og vegna þess hve vextir eru háir. Verðbólgan er margfalt hærri hér en í nágrannalöndunum, vextirnir auðvitað sömuleiðis og þetta ástand er meira langvarandi hér á Íslandi en annars staðar. Áhrifin af þessu öllu eru auðvitað ekki öll komin fram enn þá. Þau koma ekki fram á einum degi.

Það hefur talsvert verið vísað í vanskil af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Í því samhengi langar mig að nefna að yfirdráttarlán heimilanna eru komin yfir 100 milljarða, yfirdráttarlán sem eru á vöxtum sem eru á bilinu 15–20%, 100 milljarðar og fara hækkandi. Þetta eru dulin vanskil sem dembast yfir heimilin áður en hin eiginlegu vanskil koma fram. Þetta er ekki eitthvað sem ég er að finna upp, þetta er nú bara það sem umboðsmaður skuldara hefur verið að benda á. Það eru líka til kannanir sem sýna það að 70% heimila finna fyrir verðbólgu og vöxtum með mjög alvarlegum hætti. Það liggur fyrir að greiðslubyrði lána hefur í sumum tilfellum verið að hækka um 100.000–200.000 kr. í hverjum einasta mánuði. Þetta eru staðreyndir sem við þurfum að ræða þegar við erum að tala um fjárhag heimilanna (Forseti hringir.) og síðan ríkisfjármálin sem einhvern sérstakan stuðning við það hvort mögulegt sé að lækka hér vexti og verðbólgu.

Mig langar því að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra: Verðum við ekki að horfa svolítið á stöðuna (Forseti hringir.) út frá því hvernig hún er að bitna á heimilunum algerlega óháð því (Forseti hringir.) hvort öll áhrif í formi vanskila séu komin fram á þessum tíma?

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill ítreka að þingmenn þurfa að gæta að ræðutíma.)