154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því. Það er nú þess vegna sem megináherslur þessarar fjármálaáætlunar eru að styðja við lækkun verðbólgu og vaxta. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna á. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við höfum auðvitað áhyggjur, og þær eru sögulegar, af því að verðbólga verði þrálát og fari ekki niður. Þess vegna skiptir máli að leggja fram með þessum hætti þá fjármálaáætlun sem við gerum núna sem sannarlega styður við þá peningastefnu og þær aðgerðir sem Seðlabankinn stendur fyrir til að ná tökum á verðbólgu, hún lækki og vextir fari niður. Sömuleiðis hef ég ítrekað að það skiptir máli þó að heildarstaðan, sem lítur ótrúlega vel út og er eiginlega betri en maður óttaðist, þ.e. heildarskuldastaða heimila sem ég hef nefnt sem hluta af þessum mælaborði að skoða vanskil — það er rétt sem hv. þingmaður nefnir að yfirdráttarlán heimila hafa hækkað og þeir vextir eru gríðarlega háir. Það er mikilvægt að fylgjast mjög vel með á þeim markaði. Þess vegna skipta líka máli þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að grípa til við kjarasamningsgerðina, að koma inn með duglegan viðbótarvaxtabótastuðning, einskiptisaðgerð, á þessu ári til að lækka höfuðstól og í þeim tilvikum þar sem fólk kýs það heldur að eiga möguleika á að lækka afborganirnar út árið 2024. Þannig að hér eru skýrir hjálparvalkostir til staðar. Við þekkjum það líka að fjármálafyrirtækin hafa lýst því að þau séu vel í stakk búin til að halda utan um það. Kannski er það ein af ástæðunum fyrir því að vanskilin hafa ekki vaxið og menn hafi þar fleiri leiðir en færri á sama tíma og eignirnar (Forseti hringir.) hafa jú vaxið mjög mikið og kaupmáttur launa einnig og laun hafa hækkað, kannski jafnvel umfram það sem verðbólgan hefur étið upp á stundum.