154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:00]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta vera svolítið ófullnægjandi hvernig þetta allt saman er sett fram og ímynda mér þá og þykist bara viss um að upplifun þeirra heimila sem eru að upplifa þær hörmungar sem eru að ganga yfir þau í formi vaxta og verðbólgu sé ekki í samræmi við þann hugarheim sem hæstv. ríkisstjórn virðist starfa og búa í. Auðvitað er markmið okkar hér í þessum sal ekki að búa til einhvers konar kerfi þar sem menn geta rétt komist af með aðstoð fjármálastofnana og það sé endalaus sveigjanleiki fyrir fólk í því þegar hagur þess fer versnandi svo um munar. Það er auðvitað virðingarvert markmið í sjálfu sér, en við hljótum auðvitað að vilja vera á hinum endanum þar sem hagur heimilanna og hagur fyrirtækjanna er frekar að batna heldur en hitt.

Mig langaði hins vegar að nefna annað atriði sem hefur auðvitað haft mikil áhrif á verðbólgu og vexti á Íslandi og það er hvernig húsnæðismarkaðurinn hefur þróast. Þetta er auðvitað risastórt atriði fyrir heimili landsins sem vilja tryggja sér þak yfir höfuðið án þess að það hafi þau áhrif að fjárhagur heimilanna sligist algerlega undan stökkbreyttum afborgunum á hverjum tíma. Núna liggur það fyrir að þessir vextir, sem hafa verið svo háir svona lengi, verða ansi háir næstu misserin ef ætla má að hlutir fari fram eins og t.d. er verið að spá. Það hefur síðan áhrif á það hversu mikið menn eru tilbúnir til þess að reisa og byggja húsnæði þegar fjármagnskostnaður er svona hár.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort það sé ekki almennt verið að gera svolítið lítið úr þeim vanda sem blasir við okkur á húsnæðismarkaði, þ.e. að þegar spennan þar safnast upp og skellist síðan á okkur, eins og gerðist til að mynda þegar vextir lækkuðu hratt Covid-tímanum, að við fáum þá ekki aðra sprengju sem síðan vinnur auðvitað gegn þeim markmiðum sem við höfum sett okkur um lækkun verðbólgu og vaxta.