154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil nú fyrst fá að bregðast aðeins við fyrri hluta seinna andsvars hv. þingmanns. Mér fannst það vera svolítið útúrsnúningur þegar við höfum verið að reyna að útskýra að fyrir þann hóp sem verst er staddur þá eru ákveðin úrræði. En ef hv. þingmaður hlustaði á ræðu mína og les fjármálaáætlunina þá birtist þar auðvitað sú mynd að horfur á Íslandi eru ótrúlega góðar og eins sú staðreynd um stöðuna, sem ég ætla að ítreka að er eiginlega betri heldur en maður hefði getað vænst miðað við hátt verðbólgustig núna um nokkurra ára skeið, þ.e. hver skuldastaða heimila og fyrirtækja er, hvaða vaxtarmöguleikum íslenskt hagkerfi stendur frammi fyrir, sú verðmætasköpun sem er að koma hingað til okkar. Við sjáum hversu mikil umbreyting hefur orðið á því sem við áður þekktum þegar við vorum með varanlegan viðskiptahalla en erum núna komin með varanlegan viðskiptaafgang þannig að samfélagið í heild sinni er að búa til meiri verðmæti og staða hreinnar eignar erlendis fer vaxandi. Þetta er allt önnur mynd en við horfðum á bara fyrir tíu árum, hvað þá 20, 30 árum. Þannig að horfurnar eru þær að hagur allra fer vænkandi.

Þegar síðan við bætist sú glæra sem ég hef nú nefnt hérna og er ekkert að hreykja mér af — einhver var að segja að ráðherrann hefði verið að monta sig af henni. Mér finnst það ekki vera rétt. Við erum bara að setja fram staðreyndir um að kaupmáttur launa á Íslandi hafi farið vaxandi á meðan hann hefur verið að fara niður í löndunum í kringum okkur í kjölfarið á heimsfaraldrinum. Það er merki um það að okkur hafi gengið vel, það er merki um að það sem við gerðum hérna í þessum sal, vegna þeirra ákvarðana sem við tókum; að gera meira en minna, þær virkuðu og hagkerfið hefur tekið sannarlega vel við sér. Þannig að hér eru vissulega miklu meiri tækifæri. En það dregur auðvitað ekki úr því að við þurfum að horfa á þá hópa sem við vitum að eru viðkvæmastir. Þess vegna eru þær aðgerðir sem við förum í í tengslum við langtímakjarasamninga á almennum vinnumarkaði, og vonandi á hinu opinbera einnig, gríðarlega sterkur stuðningur inn í framtíðina við fólkið sem þarf á því að halda.