154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna þó að hún yrði svolítið snubbótt undir lokin. Það eru hérna til að byrja með tvær einfaldar spurningar sem ég held að ég viti svarið við en vil engu að síður óska eftir því að hæstv. ráðherra staðfesti með hvaða hætti þau mál liggja. Síðan auðvitað ber vel í veiði að hér sé nýr fjármálaráðherra sem er nýkominn úr embætti innviðaráðherra og getur þá kannski upplýst okkur með dýpri hætti en alla jafna væri um stöðu samgöngusáttmálans og uppfærslu og endurskoðun hans.

Það sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um fyrst er: Er einhver skattalækkun áætluð á áætlunartímabilinu? Í öðru lagi spyr ég um það markmið að skattar eða gjöld af akstri og ökutækjum skili 1,7% af vergri landsframleiðslu í tekjur árlega. Er ekki réttur skilningur að virðisaukaskattur sé utan þeirrar tölu, virðisaukaskattur á undirliggjandi kostnaðarliði? Síðan í þriðja lagi, sem ég kom inn á, langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig staðan er á endurskoðun samgöngusáttmálans. Það eru nokkur tímaviðmið sem hafa verið nefnd sem ekki hafa gengið eftir en nú er hér verið að leggja til 4 milljarða viðbótarframlag á ári á þessu fimm ára tímabili annars vegar og síðan aðra 4 milljarða eða sem sagt 20 milljarða í láni frá ríkissjóði til Betri samgangna ohf. Mér finnst skipta máli að við áttum okkur á því hvernig heildarmyndin er að teiknast upp. Hvenær sjáum við í þinginu þennan endurskoðaða samgöngusáttmála og með hvaða hætti er áætlað að þetta 20 milljarða lán verði endurgreitt frá Betri samgöngum ohf.? Er það í gegnum afrakstur af sölu Keldnalandsins eða er það með öðrum leiðum?