154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Það er rétt að það var bagalegt að geta ekki klárað framsöguna. Ég verð að koma henni á framfæri við fjárlaganefnd og þingið og get líka birt hana á vef ráðuneytisins til þess að allar upplýsingar sem þar voru dregnir sérstaklega fram geti komist inn í almenna umræðu.

Varðandi skattalækkanir þá fór ég hér yfir allar þær helstu breytingar sem við erum að gera á sköttum í framsögunni. Það var ekki í endanum talaði um neinar skattalækkanir, hv. þingmaður missti ekkert af því, og þær eru ekki fyrirhugaðar í sjálfu sér í þessu öðruvísi en þær breytingar sem eru aðallega á ökutækjasviðinu og síðan alþjóðlegir skattar. Hér var líka nefnd ferðaþjónustan, að þar standi til og sé til skoðunar öðruvísi gjaldtaka og þá kemur til greina að endurskoða gistináttagjaldið. Hvort það megi kallað skattalækkun fyrir hv. þingmanni veit ég ekki, hvort hann vilji telja það þeim lið til tekna. En þetta er það sem er til skoðunar í þessum pakka.

Varðandi síðan samgöngusáttmálann, svo ég nýti tækifærið í það samtal, er það rétt að endurskoðunin hefur tekið mun lengri tíma en til stóð og vonir stóðu til. Á móti hefur sú vinna verið býsna góð og þekki ég það úr mínu fyrra starfi sem innviðaráðherra að hún er á góðri siglingu. Hér í þessari fjármálaáætlun erum við að bregðast við því að þetta annað fyrirkomulag hugsanlegrar gjaldtöku hér á höfuðborgarsvæðinu er ekki komið á koppinn. Verkefnastofan, sem vinnur í samstarfi innviðaráðuneytis og fjármálaráðuneytis, hefur verið að störfum. Við erum búin að breyta ákveðnum hlutum á síðasta ári og ætlum að breyta meiru á næsta ári í þessu gjaldaumhverfi. Þess vegna erum við að koma með bein framlög um 4 milljarða á ári á þessu fimm ára tímabili auk þessarar 20 milljarða lántöku. Þar til viðbótar (Forseti hringir.) eru einhverjir 13–15 milljarðar til í kerfinu þannig að við erum að fara í framkvæmdir á þessum fimm árum (Forseti hringir.) með beinum hætti fyrir um 55 milljarða. Endurgreiðslur á því verða þá teknar í framhaldinu. Þetta er auvitað lán til lengri tíma og liggur ekki fyrir nákvæmlega núna (Forseti hringir.) hvernig það verður gert og getur það tengst breyttri gjaldtöku af umferð, sem er einn af möguleikunum sem er til skoðunar (Forseti hringir.) hjá verkefnastofunni. — Ég biðst afsökunar, frú forseti.