154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:15]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Trúverðugleiki, stöðugleiki og fyrirsjáanleiki. Það eru kröfurnar sem eru gerðar til áætlana um ríkisfjármálin. Almennt hefur traust hefur verið lítið á stjórnmálum hér á landi og eflaust er það víðar vandamál en að mínu mati á það rætur sínar að rekja til þess að fólk þarna úti upplifir oft á tíðum að aðeins sé hálf sagan sögð. Almenningur veit nefnilega meira en oft er gengið út frá hér inni. Hann skilur alveg samhengi hlutanna og áttar sig á því að þú færð ekki eitthvað fyrir ekki neitt. Það er ekki trúverðugt að halda því fram að hægt sé að ráðast í kerfisbreytingar á velferðarkerfinu í tengslum við kjarasamninga án þess að alvörupólitísk ákvörðun um fjármögnun eigi sér stað. Sérstaklega er það ekki trúverðugt þegar því var haldið fram ítrekað fyrir jól við vinnslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár að ekkert svigrúm væri til að styrkja kerfin en nú er það svigrúm skyndilega til staðar, að því er virðist án neinna beinna aðgerða, ákvarðana um niðurskurð né tekjuákvarðana samkvæmt fjármálaráðherra. Það er ekki trúverðugt að halda því fram að fram undan sé stórsókn í samgönguinnviðum þegar helsta hagstjórnarákvörðunin þessa dagana er frestun framkvæmda vegna þess að ákveðið var að kroppa hér og þar í útgjaldarammann til að fjármagna kjarasamninga. Það breytir ekki upplifun fólks af núverandi þenslu að slá um sig með tölum um hagvöxt og benda á hversu mikið landsframleiðslan hafi vaxið heilt yfir hér á síðustu árum og atvinnustig sé hátt. Það vita allir að hér er skortur á vinnuafli en það fólk sem hingað kemur er ekki vélar. Þetta er fólk með þarfir og það þarf að búa hér og nota þjónustu. Hér er ekki öll sagan sögð og það dregur úr trúverðugleika stjórnvalda.

Vissulega gengur margt mjög vel hér á landi. Hér er gott að búa en það þarf líka að tala um það að á Íslandi hefur hagvöxtur á mann verið minni en á Norðurlöndunum og í Evrópu frá árinu 2017 þrátt fyrir að hagkerfið hafi vaxið hraðar heilt yfir. Þetta skýrist m.a. af hraðari vexti í vinnuaflsfrekum atvinnugreinum og þennan mikla mun á milli hagvaxtar og hagvaxtar á mann mætti líta á sem innviðaálagið frá 2017, eina helstu ástæðu þess að fólk sem hér býr upplifir ekki endilega aukin lífsgæði vegna hagvaxtar heldur þenslu sem birtist m.a. í mikilli verðbólgu, háum vöxtum, háu húsnæðisverði og álagi á aðra innviði. Hagvöxtur síðustu ára hefur verið of dýru verði keyptur. Þegar hagvöxtur byggir á aukinni framleiðni, ekki hraðri fólksfjölgun, eru meiri líkur á að landsframleiðsla, innviðir og lífsgæði þróist í takt. Það hefur ekki verið raunin, enda skortur á atvinnustefnu hjá þessari ríkisstjórn. Í núverandi ástandi þarf fólkið í landinu ríkisstjórn sem er með heildarstefnu í velferðar- og atvinnumálum, ekki í stöðugu viðbragði og kroppi hér og þar til að láta fjárhagsramma líta vel út.

Hv. fjárlaganefnd mun fara betur yfir fjármálaáætlun á næstu vikum og verða vísari um raunverulegt innihald þessa plaggs. En í dag vildi ég fara yfir nokkur atriði sem ég hef verið hugsi yfir frá birtingu áætlunarinnar. Samfylkingin hefur ítrekað lagt fram tillögur við fjárlög sem fela í sér styrkingu á tilfærslukerfunum okkar; barna-, húsnæðis- og vaxtabætur. Hugmyndin er einföld: Að fylgja fordæmi nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum þar sem þríhliða samstarf ríkis, vinnumarkaðar og atvinnurekanda hefur orðið til þess að traust í kjarasamningsviðræðum hefur verið meira en hér vegna þess að launþegar geta treyst á að ef efnahagsaðstæður breytast muni velferðarkerfið grípa fólk betur og bæta kjör þess svo ekki þurfi að koma til meiri launahækkana. Þetta styrkir líka stöðu fyrirtækja.

Forseti. Þetta er góð efnahagsstjórn. Þetta er góð pólitík. Þetta er pólitík jafnaðarfólks og þetta er pólitík Samfylkingarinnar. En þessi pólitík felur í sér að þú verður að leggja fram allan pakkann. Þú getur ekki bara valið það sem er vinsælt á útgjaldahliðinni. Það þarf að fjármagna slíkar langvarandi breytingar á velferðarkerfinu með alvöruaðgerðum. Í fjármálaáætlun er sérstakur kafli sem fjallar um þessa skyndilegu breytingu á svigrúmi ríkissjóðs til að styrkja velferðarkerfið í tengslum við kjarasamningana. Þar stendur og kaflaheitið er: Forgangsraðað er fyrir aðkomu ríkissjóðs að kjarasamningum á almennum markaði. Fram kemur að heildarumfang aðgerðanna nemi um 80 milljörðum kr. á tímabilinu, þ.e. aðgerða vegna kjarasamninga, og varanleg aukning í útgjöldum vegna þeirra er um 13 milljarðar kr. frá 2028. Fram að þessu hafði ekki heyrst, forseti, hvaða stóru ákvarðanir átti að taka til að breyta kerfunum okkar varanlega annars staðar til að standa undir þessari breytingu og útspili. Hins vegar má nú finna í þessari fjármálaáætlun forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Ég ætla að vitna í hana, með leyfi forseta:

„Til að vega upp á móti þeim útgjaldaauka, sem aðkoma ríkisins að kjarasamningunum felur í sér, er gert ráð fyrir sértækum ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti. Í meginatriðum felast þessar ráðstafanir í forgangsröðun, hagræðingu eða betri nýtingu fjármuna […] Gert er ráð fyrir að þessar ráðstafanir skili um 17 ma.kr. minni vexti útgjalda frá því sem áður var ráðgert á árinu 2025 en þar af er varanleg útgjaldalækkun um 10 ma.kr.“

Ég skýt hér inn, forseti, að með þessum ráðstöfunum er búið að finna 10 milljarða kr. varanlega að því er virðist þó að ljóst sé að aðgerðir vegna kjarasamninga feli í sér 13 milljarða kr. varanlega aukningu í útgjöldum. Hér vantar því upp á 3 milljarða. En ég held áfram, með leyfi forseta, um hvað felst í þessum sérstöku ráðstöfunum:

„Munar þar mestu um seinkun á gildistöku nýs örorkubótakerfis, lækkun á forsendum um kerfislægan vöxt örorku- og ellilífeyris vegna lækkandi nýgengis örorku og aukinna tekna aldraðra og hliðrunar á framlagi til nýs Landspítala vegna nýtingar uppsafnaðra fjárfestingarheimilda.“

Hæstv. fjármálaráðherra fór hér mikinn í gær og gaf það í skyn að lesskilningur þeirrar sem hér stendur væri takmarkaður því augljóst væri að ekkert nýtt væri að frétta í gildistöku og frestun á nýju örorkubótakerfi. Samt er þetta flokkað sem ný sérstök ráðstöfun í þessari áætlun, ný ráðstöfun sem stendur skýrum stöfum framar í þessari áætlun að á að spara ríkinu 10 milljarða kr. á næsta ári. Þetta er ein umfangsmesta pólitíska ákvörðunin í þessari áætlun. Meiri hluti annars aðhalds, forseti, er alveg óútfærður; flatar aðhaldskröfur. Það eina sem liggur fyrir er að á næsta ári eigi að setja allt út óútfært aðhald á gjaldahliðina, sem er ekkert annað en niðurskurður, herra forseti. Svo til viðbótar við þessa pólitísku forgangsröðun til að mæta kjarasamningum hjá ríkisstjórninni, að bíða með kjarabætur fyrir öryrkja, er bent á að ekki muni takast að koma út fjárfestingarheimildum í nauðsynlegum innviðum og telst það til ákvarðana hjá þessari ríkisstjórn að sitja áfram á vannýttum fjárfestingarheimildum.

Mig langar að koma að því hérna í lokin, hæstv. forseti, að það er skýrt samhengi á milli stefnuleysis í velferðarmálum og stefnuleysis í efnahags- og atvinnumálum. Skortur á vilja til að ráðast í alvörufjármögnun á nauðsynlegum kjarabótum í formi réttlátrar gjaldtöku, til að mynda á auðlindum og fjármagni, leiðir til þess að þrengt er verulega að stoðum heilbrigðs hagvaxtar og þar með framtíðartekjuauka fyrir ríkissjóð. Kroppið hér og þar í nafni aðhalds og flöt aðhaldskrafa bitnar fyrst og fremst á fjárfestingu. Við vitum þetta öll sem höfum setið í fjárlaganefnd og rýnt fjárlög í gegnum árin. Ráðuneytin sem komu á fund nefndarinnar benda nær undantekningarlaust á að flatar aðhaldskröfur til að hjálpa til við óútfært aðhald, sem ríkisstjórnin getur ekki sett stefnumörkun um, verður til þess að fjárfestingu er frestað. Þetta aðhald byggist ekki á neinni greiningu um hvernig er hægt að fara betur með fjármagn til lengri tíma og auka framleiðni í stjórnsýslunni og í kerfunum í heild sinni.

Ég nefni að vegna skorts á alvöruákvarðanatöku eru samgönguúrbætur hér enn takmarkaðar. Fjárfesting í samgönguinnviðum er hér langt undir meðaltali OECD sem er um 1% af landsframleiðslu á meðan staðan hér var lengi vel um hálft prósent. Auðvitað er ánægjulegt, forseti, ef satt reynist að gefa eigi í viðhald á köflum en nýframkvæmdir eru enn í lamasessi. Engin ný jarðgöng hafa verið boruð á vakt þessarar ríkisstjórnar, 0. Ég er fullmeðvituð um það, forseti, að það er ekki hægt að takmarka hugmyndir sínar um framfarir og verðmætasköpun við það að færa fjármagn á milli fólks en ef hér á að vaxa með skynsamlegum hætti og draga úr því stórkostlega innviðaálagi sem hraður hagvöxtur hefur falið í sér þá verðum við að ná upp hagvexti á mann. Það gerum við m.a. með því að fjárfesta í lífæðum landsins, samgöngum, ekki með því að fresta slíkum úrbótum.

Fólkið þarna úti skilur alveg samhengi hlutanna, forseti. Það veit vel að það er ósamrýmanlegt markmið, eins og hefur heyrst þvers og kruss í þessari ríkisstjórn, að tala um að lækka skatta, auka þjónustu, auka fjárfestingu og borga fyrir það með aukinni verðmætasköpun á sama tíma og það á að tryggja litla þenslu. Slík framsetning og sú tímalína gengur einfaldlega ekki upp og Samfylkingin tekur ekki þátt í slíkri orðræðu.