154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir ræðuna og ætla að bregðast við nokkrum hlutum í hennar ræðu. Ég ætlaði ekki að tala um lesskilning hv. þingmanns í gær þó að ég benti á að þetta var það sama og ráðherrann lenti í sjálfur þegar hann las þá setningu, það virtist vera að ein helsta tillagan til þess að ná fram hagræðingu væri að fresta gildistöku breytinga á örorkusviðinu. Það er alls ekki þannig en það var bara þannig að í samhengi málsgreinarinnar mátti alveg lesa það út og ég þurfti að lesa hana þrisvar svo ég væri alveg klár á því og þó vissi ég hvað ætti að standa þarna. En það er nú eins og það er.

Ég vil bara segja hér að það er auðvitað ekki rétt hjá hv. þingmanni að hér sé eitthvert stefnuleysi í velferðarmálum. Ég heyri t.d. hv. þingmann ekki minnast á heilbrigðismál sem var þó eitt helsta umræðuefni og baráttumál Samfylkingarinnar í marga mánuði hér á liðnu misseri. En það er auðvitað vegna þess að við höfum verið að halda hér áfram mjög dyggum stuðningi við uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu. Er hægt að gera betur? Að sjálfsögðu og það verður alltaf hægt að gera betur en við erum að gera það. Við fórum í umtalsverðar breytingar á kerfum aldraðra á sínum tíma. Afleiðingin er m.a. sú — auðvitað er þar líka sú staðreynd að réttindi þeirra í lífeyriskerfinu eru að vaxa og þörf á stuðningi við þá sem ekki njóta nægilegs lífeyris fer minnkandi og það eru varanlegar tölur og þær breytast auðvitað í fjármálaáætluninni. Síðan er búið að gera breytingar á örorkukerfinu á liðnum árum, sem styðja við þá breytingu sem er að fara að eiga sér stað og mun taka gildi 1. september 2025, sem gerir það að verkum að nýgengi örorku, sem betur fer, hefur lækkað verulega. (Forseti hringir.) Það er vegna kerfisbreytinga sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir þannig að það er ekkert stefnuleysi. Það er sannarlega góð stefna og árangurinn hefur verið umtalsverður.