154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:27]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Já, það mun auðvitað ýmislegt koma í ljós við vinnslu þessa máls í nefndinni og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær vangaveltur sem hér komu fram. Eitt af því sem var velt upp á fundi nefndarinnar í gær, af því að hv. fjárlaganefnd tók málið strax inn í nefnd vegna þess að málið kom svo seint fram, var að fá skýrara útlistanir um nákvæmlega hvar þetta blessaða aðhald lægi. Þrátt fyrir að hlutir séu taldir upp sem veigamestu þættirnir í aðhaldi er því haldið fram að það sé ekki aðalmálið hér. Ég ætla ekki að fara að kýta fram og til baka um það hvernig það stendur, það þarf bara að fá það á hreint. Ef þetta er ekki veigamikil breyting þá þurfum við að vita hvernig á að fjármagna 13 milljarða kr. varanleg viðbótarútgjöld á hverju einasta ári. Ef það er ekki með þessu þá er það með einhverju öðru. Ef það er bara með óútfærðu gjaldaaðhaldi þá snýst þetta nákvæmlega um stefnuleysi vegna þess að stefna hjá ríkisstjórn myndi fela í sér að vita í hvaða farveg slíkt aðhald myndi til lengri tíma fara, ekki setja það í flatt aðhald. Þetta þarf þá bara að fá á hreint í nefndinni ef þessu er stillt upp með þeim hætti að þetta hafi ekki áhrif.

Varðandi heilbrigðismálin þá tek ég undir með hæstv. ráðherra, ég hefði gjarnan viljað fjalla um þau. Við vorum bara eins og hæstv. ráðherra upplifði sjálfur með takmarkaðan tíma. Ég vek sérstaklega athygli á því að það verður áhugavert að fá umsagnir frá heilbrigðiskerfinu vegna þess að við fengum mjög harðorða umsögn frá Landspítalanum fyrir jól þar sem var kvartað sárlega undan skorti á tækjakosti og fjárfestingu í tæknilausnum sem gerði það að verkum að rekstrarkostnaður var að aukast meira en ella í kerfinu. Þetta er þrátt fyrir að skýrslur, sem m.a. þessi ríkisstjórn hefur látið skrifa fyrir sig, hafi ítrekað sagt að fjárfesting í slíkum kerfum skipti lykilmáli upp á að draga úr rekstrarkostnaði síðar meir.