154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hagvöxtur á mann væri minni hér en á Norðurlöndunum. Lífskjör eru hér með því besta og landsframleiðsla með því allra mesta í heiminum. Ég held að það sé rétt að það séu aðeins Noregur og Danmörk sem séu svona á pari við okkur, örlítið hærri, en Svíþjóð og Finnland fyrir neðan. Ég myndi frekar nota orðalagið að hagvöxtur á Íslandi væri með því mesta í heiminum og á pari við það sem gerist best á Norðurlöndum. Ég held að það sé réttari staðhæfing.

Varðandi síðan það sem hv. þingmaður kallar stefnuleysi þá birtist í þessari fjármálaáætlun að meginmarkmiðið er að ná jafnvægi í útgjöldum og tekjum og skapa svigrúm fyrir áframhaldandi vöxt samfélagsins. Það er rétt hjá hv. þingmanni, það er þensla á vinnumarkaði, við þurfum fleiri vinnandi hendur og það er í samræmi við það sem við í Framsókn höfum ávallt sagt, að kerfið sé þannig að það sé vinna fyrst, síðan vöxtur og þannig búum við til tekjur til þess að búa til velferð. Ég veit að Samfylkingin hefur reynt að nota þessi þrjú hugtök en snúið aðeins röðinni á þeim við eins og vinnan sé ekki grundvöllurinn. Í fyrri fjármálaáætlunum vorum við með það plan að vaxa út úr vandanum. Núna erum við búin að bæta því við að hafa hófsemd í útgjaldavexti. Mér heyrist hins vegar Samfylkingin og hv. þingmaður vilja snarauka tekjur, það sé sú stefna sem hv. þingmaður vilji að við séum að standa fyrir, þ.e. snarhækka skatta. Í minni framsögu fór ég yfir þær breytingar sem er verið að gera, það er verið auka hér veiðigjöld, auka tekjur af fiskeldi, auka tekjur frá ferðaþjónustunni. Það er verið að gjörbreyta skattlagningu í vegasamgöngum (Forseti hringir.) og það er verið að taka upp alþjóðlega skatta. En við erum á sama tíma með hófsemd í útgjöldum (Forseti hringir.) til að ná þessari aðlögun og við trúum því að það sé betri leið til að efla hagkerfið heldur en að snarhækka skatta sem Samfylkingin ætlar að gera.