154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:32]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Hér var nú farið yfir margt, ég er ekki viss um að ég komist yfir alla þessa málaflokka. Ástæðan fyrir því að mér finnst skipta miklu máli að horfa á hagvöxt á mann er vegna þess að hér hefur ríkisstjórnin barið sér mjög á brjóst yfir því að það hafi verið 18–20% hagvöxtur hér yfir fimm ára tímabil en ekkert talað um eðli þess hagvaxtar eða gæði þess hagvaxtar og um áhrif hans á innviðina. Þess vegna skiptir máli að skoða hagvöxt á mann í því samhengi, til að skilja af hverju upplifun fólks af þessum hagvexti er ekki svona ofboðslega jákvæð, t.d. varðandi húsnæði. Það er enginn að gera lítið úr lífskjörum hér á landi þó að fólk vilji gera betur í þeim málefnum og átti sig á því að svona þanið kerfi með þessum hætti getur auðvitað ekki gengið upp

Varðandi stefnuleysið þá lít ég á þetta sem stefnuleysi og fólk verður þá bara að vera ósammála um það, að það hafi ekki verið neitt plan um neinar af þessum aðgerðum sem komu fram í kjarasamningum heldur hafi verið látið reka á reiðanum þar til hlutirnir áttu að vera komnir í hnút. Í norrænu kerfunum í kringum okkur, sem hér er oft horft til, eru það stjórnmálamennirnir sem leggja línurnar við upphaf kjörtímabils um hvernig þeir vilja sjá velferðarkerfið. Þeir bíða ekki eftir því að vera stillt upp við vegg í kjarasamningum og finna svo út úr því eftir á hvernig þeir vilja reka kerfin. Það er þessi ófyrirsjáanleiki sem er vondur. Þetta er stefnuleysi. Þetta á ekki að vera háð kjarasamningum hverju sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Svona horfi ég á stefnu en það kann að vera ólíkt.

Varðandi það að vilja snarhækka skatta. Ef hæstv. ráðherra finnst það svona gífurlega ósanngjarnt að fara í að breyta þeim tekjum sem hægt er að leita til af auðlindum okkar, ef honum finnst í alvöru talað það smáræði í auknu veiðigjaldi sem reiknast til í þessari fjármálaáætlun vera réttlát leið til þess að við deilum kjörum með hvert öðru, þá verðum við bara að vera pólitískt ósammála. En það er alveg hægt að sækja fjármagn til auðlinda í sameiginlegri eigu og á sama tíma ýta undir þessar atvinnugreinar. Þessar atvinnugreinar, okkar auðlindagreinar, sem margar hverjar eru staðsettar úti á landi, (Forseti hringir.) eru háðar því að vegirnir virki, að heilbrigðiskerfið virki og fólk vilji búa á þessum stöðum og til þess þarf fjármagn til að standa undir þessu.