154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:35]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun 2025–2029, mikilvægt plagg. Þar er náttúrlega af mörgu að taka og þetta fjallar svolítið um stóru myndina sem er að vænta í efnahagsmálum, hvernig við skilum þeim næstu árin og afkomu ríkissjóðs í framhaldi af samhengi hluta. Í grunninn er þessi staða mjög góð. Hún er raunverulega ótrúlega góð miðað við öll þau áföll sem við höfum verið að fara í gegnum hérna á undanförnum fimm árum, nánast upp á dag, frá því að WOW air féll 2019 sem var töluvert áfall. Við fórum á hlaupum í nýja fjármálastefnu fyrir ríkissjóð og áfallið fyrir ríkissjóð var ef ég man rétt á þeim tíma talið um 30 milljarðar. Svo leið eitt ár og þá kom Covid með 300 milljarða halla árið 2020 og síðan 2021, líka mikið efnahagsáfall. Þannig að þetta eru sérstök ár; stríðið 2022 og svo núna Grindavíkureldarnir 2023, allt búið að gerast á þessu ári.

Aðeins um sjálfa fjármálaáætlunina. Í þessari fjármálaáætlun sem hér er lögð fram verður heildarafkoma svipuð og áætlað var fyrir ári, eða mínus 1,1% af vergri landsframleiðslu, þar sem vegast á meiri hagvöxtur og kostnaður vegna aðgerða í þágu kjarasamninga auk aðgerða vegna jarðhræringa í Grindavík. Hallinn verður um 25 milljörðum kr. minni strax á næsta ári og er frumjöfnuður jákvæður og vaxandi allt tímabil áætlunarinnar, auk þess sem heildarafkoma verður jákvæð árið 2028 gangi áætlunin eftir. Þessi batnandi afkoma felur í sér að næstu árin er ríkissjóður að halda aftur af eftirspurn í hagkerfinu sem styður við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Skuldir minnka sömuleiðis á tímabilinu og verða 30,5% af vergri landsframleiðslu árið 2029, sem er ótrúlegur árangur ef við horfum bara nokkur ár aftur í tímann, til fjármálaáætlunar 2021–2025. Í alþjóðlegum samanburði eru ríkisfjármálin í góðri stöðu á Íslandi og er Ísland eitt af fáum þróuðum ríkjum sem bjuggu við jákvæðan frumjöfnuð hins opinbera árið 2023.

Því er oft haldið fram að vaxtagjöld ríkissjóðs séu svo há að það hamli möguleika ríkissjóðs til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar. Það er auðvelt að lesa töluna 114 milljarðar í fjármálaáætluninni en þá tölu verður að setja í samhengi. Það eru ekki nettó útgreiðslur á árinu. Og ekki misskilja mig, mér finnst vaxtagjöld ríkissjóðs há og vil að sú tala lækki en það verður að hafa staðreyndir á hreinu þegar talað er um vaxtagjöld og horfa á vaxtajöfnuðinn. Vaxtagjöld samkvæmt áætlun árið 2024 eru eins og fyrr sagði 114 milljarðar kr. og þar af eru verðbætur sem leggjast við höfuðstól 36 milljarðar og reiknaðir vextir lífeyrisskuldbindinga framtíðarinnar eru 18,4. Þessar stærðir, tæplega 55 milljarðar, eru ekki vaxtagjöld sem eru greidd á þessu ári. Eftir standa vaxtagjöld ársins, 59,3 milljarðar, en á móti koma rúmlega 43 milljarðar í vaxtatekjur svo vaxtajöfnuður er í kringum 16 milljarðar. Það er allt önnur tala en 114 milljarðar og mér þykir mikilvægt að setja þessa hluti í samhengi. Þessu til viðbótar eru áætlaðar arðgreiðslur ársins um 60 milljarðar sem er ávöxtun af okkar gríðarháu fjárbindingu í ríkisfyrirtækjum. Það er því ekki hægt að halda því fram að yfir 100 milljarða vaxtakostnaður sé að hamla ríkissjóði að ráðast í ákveðin verkefni.

Ísland býr á flesta mælikvarða við ein bestu lífskjör sem fyrirfinnast. Hér er öflugt atvinnulíf, mikill mannauður og hið opinbera styður við hvort tveggja með öflugum innviðum og grunnþjónustu. Heimsfaraldurinn reyndi á allt þetta og efnahagslega voru áhrifin meiri hér á landi en í mörgum öðrum ríkjum. Landsframleiðsla á mann dróst saman um 8,1% hér á landi en um 2–3% á hinum Norðurlöndunum. Við tók hins vegar kraftmeiri efnahagsbati en flestir þorðu að vona. Niðurstaðan er sú að þrátt fyrir áfallið 2020 jókst landsframleiðsla á mann á Íslandi um 2,8% frá árinu 2019 til 2023, sem er meira en í Finnlandi og Svíþjóð en minna en í Danmörku og Noregi. Öll þessi lönd eru mun minna háð ferðaþjónustu en Ísland og þá hefur fólksfjölgun hér verið mun hraðari. Þessi efnahagsbati er ekki síst fyrir tilstilli vel heppnaðs hagstjórnarviðbragðs við faraldrinum. Ríkisfjármálin hafa stutt við eftirspurn og kaupmátt, hjálpað atvinnulífinu að vera reiðubúið fyrir nýtt vaxtarskeið og gripið fólk sem fór illa efnahagslega út úr faraldrinum og takmörkunum sem honum fylgdi. Sé horft til hagvaxtar síðustu þriggja ára og þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna landsmanna jókst árin 2020 og 2021, ólíkt því sem þekkist í flestum öðrum löndum, er ekki hægt að segja annað en að markmiðið um að viðhalda eftirspurn og varðveita framleiðslugetu hafi tekist.

Árangur síðustu ára hefur verið að miklu leyti drifinn áfram af útflutningsvexti. Þar hefur munað mest um vöxt ferðaþjónustunnar á fyrri hluta tímabilsins. Síðustu ár hafa aðrar upprennandi útflutningsgreinar tekið við keflinu, t.d. fiskeldi, lyfjaiðnaður og ýmiss konar hugvitsdrifinn iðnaður. Stjórnvöld hafa á tímabilinu lagt sérstaka áherslu á uppbyggingu fjölbreyttari stoða undir efnahagslífið og því er vöxtur þessara greina afar ánægjulegur. Í nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem kynnt var árið 2019 var lögð áhersla á að skapa kjörlendi til að setja á fót alþjóðlega samkeppnishæf fyrirtæki. Það hefur tekist vel en er ekki sjálfsagt. Haldi Ísland áfram á sömu braut vaxtar nýrra útflutningsgreina getur það haft afgerandi jákvæð áhrif á afkomu og skuldaþróun ríkissjóðs sem aftur auðveldar ríkissjóði að takast á við hvers kyns áföll eða áskoranir í framtíðinni. Kaupmáttarvöxtur á Íslandi hefur verið margfalt hraðari en í samanburðarlöndum okkar síðustu ár. Það er á færi okkar að halda áfram á sömu braut og verja þann árangur sem hefur náðst.

Forgangsröðun í þágu aðgerða vegna kjarasamninga, lakari efnahagshorfur og jarðhræringar á Reykjanesi leiða til þess að vinna þarf gegn neikvæðum áhrifum á afkomu ríkissjóðs. Þeim verður mætt með tekjuráðstöfunum sem voru kynntar við síðustu fjármálaáætlun. Það hjálpar líka að almennt er góður gangur í efnahagslífinu sem skilar sér í sterkum tekjustofnum.

Helsta breytingin í fjármálaáætlun 2025–2029 felst hins vegar í aðgerðum á gjaldahlið. Útgjöld ríkissjóðs hafa vaxið mikið á undanförnum árum og eru með því hæsta sem gerist í alþjóðlegu samhengi, svo ýmis tækifæri eru til að nýta fjármuni almennings betur. Gert er ráð fyrir aðhaldsaðgerðum sem samtals lækka útgjöld um 17 milljarða kr. á næsta ári til viðbótar við 9 milljarða kr. aðhald sem verður útfært nánar á komandi ári. Aðgerðirnar eru fjölþættar en þar má nefna seinkun nýs örorkulífeyriskerfis til september 2025 og breytt fyrirkomulag við kvikmyndaendurgreiðslur, hliðrun á framkvæmdum við Landspítalann, lækkuð framlög til Alþingis og fækkun stofnana. Þá er ekki lengur gert ráð fyrir fjármagni til nýs húss viðbragðsaðila, en á móti má nefna að nú er gert ráð fyrir fjármagni í nýtt fangelsi. Þá gefa nýgerðir langtímakjarasamningar tilefni til lækkunar á almennum varasjóði sem verður þó 2% af heildarfjárheimildum undir lok tímabils áætlunar en lögbundið lágmark er 1%.

Stjórnvöldum ber skylda til að leita í sífellu tækifæra til þess að nýta fjármuni betur, bæði vegna þess að skattheimtan, sem er forsenda þeirra, er töluverð en líka vegna þess að sífellt koma fram góðar hugmyndir að nýjum verkefnum sem ekki er öllum hægt að hleypa í framkvæmd við óbreytt ástand. Óháð því hver stefnan er um ríkisumsvif er því nauðsynlegt að leita leiða til þess að hver króna nýtist betur. Einn af þeim þáttum sem lögð verður áhersla á í þeim efnum á næstu árum er einföldun stofnanakerfis ríkisins til að það byggist upp með færri en öflugri stofnunum. Ríkisendurskoðandi hefur m.a. lýst því sjónarmiði að smæð stofnana sé í flestum tilvikum hamlandi í rekstrar- og faglegu tilliti og því sé nauðsynlegt að efla stofnanakerfið svo það hafi burði til að takast á við viðfangsefnin. Stofnanir ríkisins eru í dag 161 talsins og hefur þeim fækkað um fimm á kjörtímabilinu. Ýmsar breytingar á stofnanakerfinu eru í farvatninu á árinu með fækkun niður í 154 stofnanir, en gera þarf betur.

Ég sé að tíminn er búinn, ég hélt ég væri með 15 mínútur en þær eru víst bara 10. Það hefur gerst margítrekað í dag að við höldum að við fáum lengri ræðutíma, en ég vonast til að koma fleiri punktum að í umræðunni síðar í dag sem snúa að þessu. (Forseti hringir.) En í stóru myndinni er staða ríkissjóðs ótrúlega góð, hvað þá ef við miðum við það ástand sem var uppi í mars 2020 (Forseti hringir.) þegar við fórum í vinnu við fjármálaáætlun 2021–2025 og þá stöðu sem þar var uppi, hún hefur braggast verulega.