154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég var hérna í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra áðan og ég held að hann hafi ekki alveg áttað sig á því hvað ég var að spyrja hann um eða útskýra fyrir honum þegar ég segi að ríkisstjórnin sé stefnulaus og hafi í rauninni útvistað stefnu sinni til vinnumarkaðarins. Það er nefnilega þannig í lögum um opinber fjármál sem hæstv. ráðherra þarf líklega bara að lesa, nýkominn í embætti: Stefna stjórnvalda er sett fram í fjármálaáætlun. Það er ekki hægt að taka til hliðar einhverja 20 milljarða og segja: Við útfærum þetta seinna, en við ætlum að setja 20 milljarða í eitthvað sem við ætlum síðan að semja um í kjarasamningum. Það virkar ekki þannig. Það bara má ekki virka þannig. Þegar ríkisstjórnin skilar auðu, er með engar útfærslur á þessum aðgerðum sínum til handa vinnumarkaðinum, til handa í rauninni velferðarkerfinu og kemur síðan seinna eftir umræður við vinnumarkaðinn og segir: Þetta er það sem við ætlum að gera, þá er það bara of seint, of lítið, of seint. Það átti að setja þetta fram í fjármálaáætlun og síðan í fjárlögum. Þar er fyrirsjáanleikinn og gagnsæið sem er talað um, sem eru grunngildi opinberrar fjármálaáætlunargerðar. Þau eru algerlega hunsuð með svona vinnulagi. Ef það er ekki hægt að tala við aðila vinnumarkaðarins fyrr, fyrir setningu fjármálaáætlunar — það væri hægt að leysa það þannig en ekki gerir ríkisstjórnin það heldur bíður með það fram á síðustu stund til að geta komið sem einhvers konar bjargvættur og reddað kjarasamningum.

Það má ekki virka svona ef við eigum í alvörunni að hafa einhvers konar efnahagsstjórn í ríkisfjármálunum, sem er einmitt engin. Það er mjög skýrt þegar umsagnaraðilar koma og segja: Í besta falli eru þetta hlutlaus fjárlög sem voru sett hérna síðast. Það þýðir einfaldlega að öll hagstjórnin fellur á Seðlabankann, peningamálastefnuna. Þess vegna eru stýrivextir svona háir, mjög einfalt dæmi. Þetta er mjög augljóst en samt segja ráðherrar einhverja aðra sögu, þrátt fyrir að það sé engin innstæða á bak við það. Það er ekki heiðarlegt að vinna svoleiðis.

Við erum núna komin með nýjan flokk í fjármálaráðuneytið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur stýrt ráðuneytinu nær óslitið í ellefu ár og lengi þar á undan og á þeim tíma hefur ýmislegt gerst. Húsnæðisbótakerfið hefur verið veikt. Séreignarsparnaðurinn er notaður til að borga upp húsnæðislán sem nýttist aðallega 30% þeirra ríkustu og keyrði upp húsnæðisverðið. Það er orðið mun erfiðara fyrir fólk að safna fyrir útborgun og leiguverðið hefur keyrst upp á sama tíma í hlutfalli við það. Það er hærra hlutfall aðila sem eiga fleiri en eina íbúð af því að foreldrar þurfa að koma og redda, kaupa þriðjung af íbúðinni á móti börnum sínum eða helming jafnvel. Við erum með í rauninni þennan blinda punkt í hagkerfinu þegar allt kemur til alls. Það er ekki skýr sýn eða stefna sem útskýrir fyrir okkur samhengi málanna, enda erum við með þrjá flokka, í rauninni þrjár minnihlutastjórnir í ríkisstjórn þar sem nokkurn veginn hver gerir bara sitt. Þegar fjármálaáætlunin var kynnt fyrir fjárlaganefnd í gær þá var einmitt sagt: Já, það komu nú tillögur frá ráðuneytunum upp á svona 100 milljarða meira heldur en er úthlutað hérna í fjármálaáætlun. Við spyrjum: Fyrirgefið, 100 milljarða, í hvaða verkefni? Ja, það eru vinnugögn. Það er ekki hægt að tala um það. En við sjáum samt að á fjölmörgum sviðum, t.d. landhelgisgæslu, betrunarmálum, heilbrigðisþjónustu, miðað við biðlistaþróun og ýmislegt svoleiðis, þá vantar fjármagn.

Stjórnvöld eru ekki að sinna fyrstu skyldu sinni, að fara eftir lögum. Fyrsta skylda stjórnvalda er að fjármagna framkvæmd þeirra laga sem Alþingi hefur sett. Ríkisstjórnin kemur til Alþingis og segir: Þetta er tillaga okkar til að fullfjármagna þau lög sem við höfum sett hérna á þingi. Við rýnum það og pössum upp á þetta: Já, þetta er nægt fé til að bregðast við þessu eða vinna á móti þessu eða setja t.d. inn meiri forvarnir til að koma í veg fyrir framtíðarkostnað í heilbrigðiskerfinu eða annars staðar. Þessar útskýringar liggja allar á bak við en þegar allt kemur til alls er þær hvergi að finna. Útskýringarnar eru bara: Heyrðu, upphæðin sem við notuðum í fyrra, við bætum við einhverjum prósentum, einhver kerfislægur vöxtur og endum í þessari upphæð. Þegar maður spyr: Dugar þetta til að sinna t.d. landamæragæslu, Landhelgisgæslunni, dómstólum, löggæslu, betrun fanga, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu?, þá er svarið í alvörunni: Við vitum það ekki. Það er ekki sagt alveg svo beint, það er yfirleitt farið í alls konar krúsidúllur og sagt frá því hvað er búið að gera æðislega hluti undanfarið og svoleiðis. Maður spyr aftur: En dugar það til að sinna þessari þjónustu sem er lögbundin? Svarið er aftur. Ég veit það ekki. Það er ekki svona beinskeytt af því að það er einfaldlega bara of vandræðalegt að svara því sem er augljóst.

Ég er ekki byrjaður á þessum 17 blaðsíðum en ætla að drepa niður á nokkrum stöðum. Tökum heilbrigðiskerfið, rétt svo. Á Landspítalanum hefur neyðarmóttakan þurft að senda út viðvaranir og biðja fólk um að leita annað af því að þau sinna svo mörgum sjúklingum. Með leyfi forseta sagði Ólafur Guðbjörn Skúlason, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum: „Fyrir ekki mörgum árum síðan þótti það mjög mikið ef 100 manns leituðu á bráðamóttökunni í dag en í dag eru það um 200 manns á dag.“ Þessi fjöldi á bráðamóttökuna hefur verið viðbúinn í mörg ár þar sem Íslendingum hefur fjölgað. Þjóðin hefur elst og milljónir ferðamanna hafa bæst við en þrátt fyrir það hefur ekki verið brugðist við þessari aukningu á viðeigandi hátt. Með leyfi forseta: „Það er uppsafnaður vandi hér til margra ára“, sagði Runólfur Pálsson í Silfrinu í byrjun mars 2024. Við höfum ekki brugðist við mjög örum samfélagsbreytingum síðustu tvo áratugi. Eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu er að aukast og við höfum ekki þróað innviði til þess að mæta þessu, til að mynda innan opinbera kerfisins, sem gerir það að verkum að hvort sem það er innan heilsugæslunnar eða jafnvel í sumum tilvikum innan Landspítalans og svo sannarlega á landsbyggðinni erum við í erfiðleikum með að mæta þjónustuþörfinni með þeim mannafla sem þarf. Það er viðvarandi læknaskortur, álag á heilbrigðiskerfinu hefur sjaldan verið meira og löng bið er eftir þjónustu í síma eða heilsugæslustöð.

Þetta er staðan. Ef ég fer síðan yfir í hjúkrunarheimilin, þá er það búið að vera vandamál frá því að ég byrjaði í fjárlaganefnd. Sífellt fundir á hverju þingi um slæma stöðu í hjúkrunarmálum, allir jafn alvarlegir í fasi og öllum finnst þetta jafn alvarlegt. Hvað á að gera? Hvað gerist? Það gerist ekkert, hverjar sem væntingar fólks eru til þess hvað eigi að gera. Í desember 2023 voru 93 sjúklingar á spítalanum, Landspítalanum sem ættu frekar heima á öðru þjónustustigi. Þetta er búið að vera lengi í kringum 100 manns eða svo, fer upp og niður eftir stöðunni en er í kringum þetta.

Geðheilbrigðismál barna. Um síðustu áramót biðu 1.636 börn eftir athugunum á Geðheilsumiðstöð barna og höfðu 1.220 beðið lengur en þrjá mánuði. Biðtími eftir þjónustu á Stuðlum er 66 dagar en engin bið var eftir þessari þjónustu fyrir einu ári síðan. Á BUGL er biðtíminn rétt rúmur mánuður þannig að það er aðeins að koma og fara en biðlistinn er langur. Það var verið að færa til innan heilsugæslunnar þannig að álagið færðist frá BUGL yfir til heilsugæslunnar. Þetta lagaði ekki neitt, færði bara biðlistana til. (Forseti hringir.)

Ég get ekki séð lausnina í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ég vona að það verði gert betur næst.