154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025–2029. Við ræddum hér fyrir ári fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024–2028. Ég ætla ekki að fara í hana en mig langar svona til gamans að sýna hvernig aðhald ríkisstjórnarinnar lítur út á prenti. Aðhaldið og hagræðingin hefur klippst niður um ríflega helming, það er nú munurinn á þessum doðröntum sem við erum með hér á milli ára, úr 422 blaðsíðum í 198. Þannig að eitthvað hefur nú vafist fyrir þeim hvernig þeir ætluðu að reyna að klína þessari fjármálaáætlun saman.

Við skulum athuga að á gildistíma þessarar áætlunar sem við ræðum hér er áætlað að skuldir ríkissjóðs muni aukast úr 1.790 milljörðum kr., sem þær eru í dag samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Lánamála ríkisins, en þegar tímabili þessarar fjármálaáætlunar lýkur mun ríkissjóður skulda 2.150 milljarða kr. Það er hækkun á tímabili þessarar fjármálaáætlunar um 360 milljarða kr. á fimm árum.

Hér kom hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson áðan upp og þakka ég honum fyrir hans ræðu. Það liggur náttúrlega algerlega á borðinu að ríkissjóður greiðir 117 milljarða kr. í vexti á hverju einasta ári og þó svo að ríkið fái, eðli málsins samkvæmt, líka vaxtatekjur eins og hv. þingmaður réttilega benti þá hefði þessi kona sem hér stendur frekar viljað nýta þetta í eitthvað annað eins og að byggja upp innviðastoðir en að greiða vaxtagjöld af skuldum ríkissjóðs. Það er ansi öflugt að ætla það að ríkið verði komið í skuldir upp á þriðja þúsund milljarða kr., 2.150 milljarða kr., í lok þessarar fjármálaáætlunar.

En hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður? segir nú í einu ljóði með Grýlunum okkar góðu, en ég segi hins vegar: Hvað er svona merkilegt við þessa fjármálaáætlun? Já, það er ákveðin draumsýn sem á að gilda alveg út árið 2029. Ég ætla að gleðjast í hjarta mínu og segi af allri minni sannfæringu: Þessi ríkisstjórn mun ekki sitja hér að völdum þá, það liggur alveg á borðinu. Það segir völvan Inga Sæland, hv. þingmaður, þannig að einungis eitt ár af þessari fjármálaáætlun verður í fanginu á þessari ríkisstjórn, 18 mánuðir, þ.e. ef þau verða ekki komin í hár saman fyrir þann tíma og búin að slíta þessu samstarfi. Mér skilst nú að ég hafi reynt að leggja mig fram um að reyna að aðstoða þau við að vinna í málunum sínum með því að leggja fram vantrauststillögu í gær sem tók ríflega fimm klukkutíma í meðförum þingsins og kom alveg í veg fyrir það að þessi hæstv. ríkisstjórn gæti einbeitt sér að þeim verkum sem hún á að vinna. Þá finnst þeim fínt að koma hér með 198 blaðsíður af nánast engu nema beinni aðför að öryrkjum, spara 10 milljarða á því að leiðrétta ekki kjör öryrkja um áramótin eins og áætlað var, 10 milljarða. Ég veit ekki til þess að það séu margir í samfélaginu sem þurfa meira á hjálp okkar að halda en einmitt öryrkjar. Ég veit ekki til þess. Ef metnaður þessarar ríkisstjórnar nær ekki lengra en það að tala um aðhald og hagræðingu í rekstri og það felst í því að níðast á öryrkjum þá gef ég lítið fyrir það en það kemur ekki á óvart. Þannig hef ég upplifað þessa ríkisstjórn í þau tæpu sjö ár sem ég hef verið kjörin fulltrúi á Alþingi Íslendinga. Persónulega segi ég að það er skömm að þessu. Og þessum tíma sem við erum að eyða í þetta innantóma blaður þessarar fjármálaáætlunar hefði verið betur varið í öll þau stóru og frábæru mál sem þessi ríkisstjórn segir að séu hér fyrir höndum að vinna, að það sé verk að vinna. En þau ætla að eyða hér og gera ráð fyrir þremur dögum í það að tuða um nánast ekki neitt eins og ég sé það. Þessir 18 mánuðir sem þessi ríkisstjórn fær að njóta ávaxtanna af þessari fjármálaáætlun duga skammt þegar áætlunin er til fimm ára, ekki satt? Það má því lengi deila um það hvernig er farið með tímann hér á hinu háa Alþingi. En hvað um það.

Við sjáum það og vitum að það eru nánast engar stoðir innviða í samfélaginu sem standa traustum fótum. Við vitum um lengda biðlista, þvert á það sem hefur verið haldið hér fram eins og í gær, að hér væru biðlistar að styttast. Það er rangt. Það er á sumum sviðum eins og t.d. í liðskiptaaðgerðum, þar sem búið er að ganga til samninga við sérgreinalækna og annað slíkt og reynt virkilega að koma til móts við þann fjáraustur sem fólst í því að fólk fór til annarra Norðurlanda í þessa aðgerð og hún var þá u.þ.b. þrisvar sinnum dýrari heldur en hún var hér heima. Það var ráðist í það verkefni að reyna a.m.k. að sporna gegn því og það er vel. En að öðru leyti, eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson benti hér á, eru sorglegar staðreyndir um biðlista barna bæði í fíknivanda og geðvanda, vaxandi vanda. Það er sárara en tárum taki. Það er líka sárara en tárum taki að horfast í augu við það að í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa hundruð einstaklinga dáið ótímabærum dauða vegna fíknisjúkdóma. Að það skuli bíða hér yfir 700 manns á biðlista eftir því að komast í meðferð inn á sjúkrahúsið á Vogi og fá nauðsynlega læknishjálp er með slíkum ólíkindum. Metnaðarleysið í áætlunum okkar til næstu fimm ára tekur ekki í neinu utan um þá eymd sem raunverulega blasir við, ekki einungis hér við okkur alþingismönnum og sitjandi ríkisstjórn heldur öllum landsmönnum.

Og ekki nóg með það að þessir einstaklingar séu látnir bíða eftir hjálpinni og komist ekki undir læknishendur heldur tekur ekkert utan um þá þegar þeir koma út, engar heildstæðar aðgerðir eða áætlanir um það hvernig við eigum að aðstoða fólk sem hefur jafnvel lagt það á sig að vera í hálfs árs langtímameðferð til að reyna að taka þátt í samfélaginu. Þetta kallar ágætur Framsóknarflokkur að virkja mannauðinn. Að virkja mannauðinn, láta hann í rauninni fara í þá hringrás eina ferðina enn að fara aftur í meðferð, fara aftur á biðlista eftir að komast í meðferð vegna þess að þegar hann er búinn að leggja það á sig að fara í langtímameðferð til að geta tekið utan um fjölskyldu sína, tekið þátt í atvinnulífinu og tekið þátt í samfélaginu, þá bíður hans ekki neitt. Það er enginn metnaður hér, engin sýnileiki um að það sé verið að taka utan um þennan málaflokk, ekki neitt. Hvers lags ríkisstjórn er þetta eiginlega? Er nema furða að maður spyrji.

Þessi fjármálaáætlun er í rauninni, eins og ég segi, í kjólinn fyrir jólin, innantómt blaður. Það verður nánast ekkert af henni framkvæmt nema þjóðarhöll sem Framsóknarflokkurinn óvart lofaði hérna í hita leiksins að koma á laggirnar og verður í rauninni núna hrein og klár þensla þó svo að það eigi að draga úr öðrum framkvæmdum á móti til að reyna að sporna gegn þeirri þenslu sem þegar hefur verið boðuð.

Það tekur í rauninni ekki nokkru tali hreint út sagt hvernig komið er fram við samfélagið hér með hækkandi álögum á heimilin í gríðarlegu vaxtaokri. Hér er því haldið fram t.d. að skuldir heimilanna hafi lækkað þegar þær jukust um 5,7% og hér sé algerlega frábær kaupmáttur og aldrei verið meiri jöfnuður. En þessi kona segir: Það hefur sjaldan verið annar eins vöxtur á fátækt og sýnilega nú þar sem við erum að draga millistétt landsins niður í það að geta farið að teljast með þeim sem eru efnaminni og basla í samfélaginu. En auðvitað tekur enginn eftir því sem situr í þessum fílabeinsturni og er nákvæmlega sama um hvernig fólkið hefur það hér á götunni fyrir neðan. Það er löngu tímabært að valdhafarnir stígi niður úr fílabeinsturninum niður á jörðina til almennings og fólksins í landinu, þeirra sem þeir óska eftir að kjósi þá til verksins í næstu kosningum, og taki utan um þá af heilindum en ekki með innantómu blaðri og innantómum loforðum sem aldrei hefur staðið til að efna.